Gestur Guðjónsson

19 október 2005

Sækja - sótti - sótt til saka

Mikið hefur farið fyrir umræðu um Baugsmálið undanfarið. Ekki ætla ég að gerast enn einn sjálfskipaði kverúlantinn og dylgjarinn í því máli, en í framhaldi af því er ljóst að fara þarf yfir það hvernig málum er háttað við rannsókn brotamála og saksókn í framhaldi af þeim og hvort breytinga sé þörf.

Verkefni efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra er rannsókn auðgunar- og fleiri brota, eða eins og segir á heimasíðu embættisins:
“Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans fer með rannsókn alvarlegra brota gegn ákvæðum auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga. Einnig fer deildin með rannsókn ákveðinna sérrefsilagabrota, þ.e. brota gegn skattalögum, tollalögum (tollsvik), lögum sem varða gjaldeyrismál, verðlagsmál, verðbréfa- og lánsviðskipti, umhverfísvernd, vinnuvernd og stjórn fiskveiða. Þá annast deildin rannsókn allra svokallaðra efnahagsbrota, en þau eru skilgreind sem refsiverð háttsemi í hagnaðarskyni, sem fer fram kerfisbundið og reglulega í annars löglegri atvinnustarfsemi lögaðila eða einstaklinga”
Á heimasíðu deildarinnar segir að á hinum Norðurlöndunum séu tilsvarandi sérhæfðar deildir varðandi efnahagsbrot, sem er góðra gjalda vert. Samt hlýtur það að stinga í stúf við annað skipulag um meðferð opinberra mála að rannsókn mála og saksókn er á sömu hendi, sem er ekki tilfellið í öðrum málum.

Er vísað til þess hversu sérhæfð málin eru í því sambandi, en í meðferð þessara mála eins og allra annarra opinberra refismála hlýtur að vera eðlileg krafa að rannsókn og ákvörðun um ákæru sé aðskilin. Enda er það að lenda saklaus í opinberri ákæru af þessu tagi það alvarlegt mál að það hlýtur að eiga að fara í gegnum hendur óháðs aðila eins og tilfellið er í öðrum málum, þar sem ríkissaksóknari fer yfir rannsóknargögn lögreglu og metur hvort ástæða er til ákæru.

Er því eðlilegt að skoðað verði með fullri alvöru að flytja ákæruvald efnahagsbrotadeildar til ríkissaksóknara og í rauninni rökrétt framhald af því að sýslumannsembættunum var breytt eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu og yrði almennt til bóta við meðferð opinberra mála.

Það stingur einnig í augun að á meðan að efnahagsbrotadeildin sinnir þeim verkefnum sem ofan eru talin, skuli samhliða vera rekin embætti sem eru að fjalla um sömu eða sambærileg mál sem hafa aukreitis ígildi dómsvalds í málaflokkum sínum auk rannsóknarheimilda. Skattrannsóknastjóri rannsakar skattalagabrot, Tollstjóri rannsakar tollalagabrot og mýgrútur af eftirlitsstofnunum á sviði umhverfis-, vinnuverndar-, fiskveiða-, viðskipta- og fjármála hafa eftirlit með og rannsaka mál sem viðkomandi stofnanir verða svo líklegast að kæra til embættis ríkislögreglustjóra til að embættið aðhafist í málinu. Sömu stofnanir hafa að auki flestar heimildir til að beita stjórnvaldssektum og eru þar með í raun orðnir dómarar í þeim málum sem þau rannsaka.

Er þá ekki einfaldara að viðkomandi eftirlitsstofnanir rannsaki og leggi málin beint til saksóknara, enda hlýtur sérfræðiþekkingin hvort eð er meira og minna að vera innan viðkomandi embætta og stofnanna og rannsókn mála hlýtur þegar að hafa farið fram?

Nema að spilinu sé snúið við og efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra yrði stórefld og um leið falið að rannsaka öll þau mál sem viðkomandi eftirlitsstofnanir telji að brjóti í bága við lög og reglur og vinni deildin svo málið í hendur ríkissaksóknara, sem getur lokið málum með dómssátt eða ákært?

Um þetta og annað þessu tengt verður sjálfsagt skeggrætt næstu misseri en eðlilegt er í tengslum við verkefnið “Einfaldara Ísland” sem forsætisráðherra hefur hleypt af stokkunum að farið yfir þessi mál samhliða öðrum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home