Gestur Guðjónsson

12 október 2005

Bakarar og smiðir

Það dylst engum sem fylgist með þjóðmálaumræðunni þessa dagana að það er álag á efnahagskerfi þjóðarinnar. Mörgum er kennt um ástandið en helst beinist gagnrýnin að rekstri ríkissjóðs, íbúðalánasjóði og virkjanaframkvæmdum. En hvort eru þetta bakararnir eða smiðirnir?

Fyrst er rétt að spyrja sig hvort það sé eitthvað ástand?
Útflutningsatvinnuvegirnir kvarta sáran undan háu gengi og virðist vera sem háu gengi krónunnar sé kennt um allar lokanir og uppsagnir í sjávarútveginum. Megnið af þessum lokunum eru í rækjuvinnslunni og eitthvað virðist mönnum þar gleymast að olíuverð er hátt, það er sáralítil rækjuveiði sem eykur olíueyðslu á hvert veitt tonn og verðið á rækju er lágt vegna samkeppni við aðra rækju, jafnvel þó í erlendri mynt sé talið. Auðvitað hefur gengið mikið að segja um hversu mikið fæst fyrir hvert kíló í íslenskum krónum, en það hefur ekki allt að segja. Hinir þættirnir, þeas aflabresturinn og verðið á erlendu mörkuðunum hafa ekki minna að segja í því sambandi og því rétt að halda því til haga.

En hið háa gengi krónunnar samfara kaupmáttaraukningu undanfarinna ára og miklu lánsfé í umferð hefur það í för með sér að erlend vara flæðir nú inn sem aldrei fyrr. Hefur einkaneysla aukist svo um munar, þannig að vöruskiptajöfnuðurinn er afar óhagstæður og ástæður hans kannski verstar, þar sem aukningin er mest í eyðslu í forgengilega hluti en ekki framleiðslutækin álver og virkjanir eins og haldið er fram. Sést það best á hagtölum Hagstofunnar. Er aukningin í einkaneyslu slík að innflutningur vegna stóriðju- og virkjanaframkvæmda eru eins og dropi í hafið í því sambandi. Aukning í útgjöldum ríkisins er nánast einvörðungu launahækkanir og er frestun opinberra verkefna meðan á virkjunarframkvæmdum stendur til fyrirmyndar. Þannig að með hóflegri einföldun má segja að það sé ástand, en ástandið er neysla þjóðarinnar, eyðsla í forgengilega hluti sem ekki skila sér með saman hætti og fjárfestingar í framtíðinni.

Við því ástandi verður að bregðast. Það verður sem sagt að bregðast við því að lánsfé sé notað í neyslu forgengilegra hluta. Engin ástæða er til að hefta aðgengi að lánsfé til húsbygginga og slíkar hluta enda fjárfesting til framtíðar en með innkomu bankanna á húsnæðismarkaðinn, þvert ofan í yfirlýsingar þeirra þegar kosningaloforð Framsóknarflokksins um 90% lán Íbúðalánasjóðs voru gefin, ásamt almennri eflingu bankanna, hefur aðgengi almennings að lánsfé aukist svo að greinilegt er að mikið af neyslunni er tekin að láni. Það er ekki gott og við því verður að bregðast. Það er rétt að halda því til haga að útlán Íbúðalánasjóða hafa ekki aukist undanfarin misseri, svo ekki er hægt að kenna honum um peningamagnið sem er í umferð.

Seðlabankinn hefur beitt stýrivaxtatækinu til að reyna að hafa áhrif á verðbólguna, en það er greinilegt að það vopn er seinvirkt og hefur slæmar hliðarverkanir á gengi krónunnar og spurning hvort það dugi yfirhöfuð. Seðlabankinn hefur fleiri vopn til að minnka fé á peningamarkaðnum, en það er vald hans til að stjórna bindiskyldu bankanna. Með því að auka hana á tímum eins og þessum er hægt að taka mikið magn peninga af markaði og torvelda aðgengi að lánsfjármagni og eins hægt að auðvelda það þegar hægjast fer um í efnahagslífinu.

Spurning er hvort þessi vopn dugi til að minnka útlán viðskiptabankanna og peningamagnið í umferð til að slá á neysluna eða hvort bankarnir hafi leiðir til að komast framhjá þeim áhrifum, því það er alveg ljóst að það eru útlán bankanna sem eru að valda stærstum hluta þenslunnar ásamt kaupmáttaraukningunni og verða þeir að teljast smiðirnir í þessu dæmi, meðan íbúðalánasjóður, virkjanaframkvæmdir og stjóriðjuframkvæmdir eða rekstur ríkissjóðs eru bakarar.

En ljóst af öllu að ef Seðlabankinn hefur ekki vopn til að stjórna hagkerfinu verða menn að taka opna umræðu um framtíð íslensku krónunnar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home