Gestur Guðjónsson

27 október 2005

Kaup ríkisins á þjónustu sérfræðilækna

Eins og stjórnmálin eru í dag virðast stjórnmálamenn mæra einkarekstur í heilbrigðiskerfinu í hástert. Ekki eru allir að tala um sama hlutinn í því sambandi. Sjálfstæðismenn virðast vilja hafa tvöfalt heilbrigðiskerfi, þeirra sem geta borgað og svo heilbrigðiskerfi okkar hinna. Hvað Samfylkingin vill veit ég ekki en orð eins og einkaframtak og einkarekstur virðast koma í belg og biðu upp úr þeim þessi misserin svo eitthvað eru þeir að gæla við slíkt.

Það er skýrt í stefnu Framsóknarflokksins og hefur Jón Kristjánsson Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra staðið eins og klettur í að verja okkur gegn þeirri vá að komið yrði á tvöföldu heilbrigðiskerfi hér á landi.

Einkarekstur getur vel átt við í mörgum tilfellum, samanber rekstur öldrunarþjónustu og í gangi eru tilraunir með einkarekna heilsugæslu, sem eru góðra gjalda verðar og verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þeim tilraunum. Þar hafa í einhverjum mæli farið fram útboð og lögmál markaðarins og heilbrigðrar samkeppni hvetja rekstraraðila til að gæta aðhalds og ráðdeildar í rekstri og er það vel. Þá er vel farið með skattpening almennings um leið og vel skilgreind þjónusta er veitt.

En algerlega óskylt lögmálum markaðarins er fyrirkomulag við kaup ríkisins á þjónustu sérfræðilækna. Samtök þeirra semja við Tryggingastofnun fyrir hönd þeirra allra um einingar og einingaverð fyrir vissar rannsóknir og aðgerðir, en svo virðast sérfræðilæknar hafa sjálfdæmi um það hvernig þeir framkvæma aðgerðirnar og rannsóknirnar og virðist hvergi vera til sparað og lítillar umhyggju fyrir takmörkuðum fjármunum ríkisins gætt, hvað þá okkar sem þurfum að borga komugjöldin.
Hægt væri að fylla þykkar bækur með dæmisögum, en bara það að fara í einfalda sýnatöku eða rannsókn kostar oftast undirbúningsviðtal, sem er ein heimsókn með tilheyrandi kostnaði fyrir sjúkling og Tryggingastofnun, sjálf sýnatakan eða myndatakan sem er önnur heimsókn og svo sú þriðja til að kynna niðurstöður rannsóknarinnar. Allt með tilheyrandi rukkun á sjúkling og skattgreiðendur í hvert skipti. Sömu greiningu er svo í mörgum tilfellum hægt að fá gerða á innanvið klukkutíma á spítala og er þá kynning á greiningunni og niðurstöðum hennar innifalin. Vandamálið er að maður þarf fyrst að leggjast inn á spítala til að fá þann aðgang.

Ómögulegt virðist vera að hafa eftirlit með þessum vinnubrögðum, að minnsta kosti verður maður sem almennur borgari ekki mikið var við umræðu um það.

Eðlilegra væri að Tryggingastofnun byði út þær rannsóknir og aðgerðir sem hægt væri að bjóða út, magn rannsókna og aðgerða er nokkuð fyrirsjáanlegt frá ári til árs og aðferðir og gæðamarkmið einnig. Ef halda á áfram að kaupa þjónustu af einkareknum sérfræðilæknum er illa farið með fjármuni ríkisins og beinlínis í andstöðu við lög um innkaup á vegum hins opinbera að bjóða ekki slíka kaup út, ef ríkið ætlar ekki sjálft að framkvæma verkin á sínum sjúkrahúsum eða heilsugæslustöðvum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home