Gestur Guðjónsson

23 febrúar 2005

Grunnnet Landssíma Íslands hf

Í umræðum um sölu Landssíma Íslands hf. hefur mikið verið til umræðu hvort undanskilja eigi grunnnet fyrirtækisins frá fyrirtækinu áður en það verður selt. Ekki hefur fengist nein samhljóma skilgreining á því hvað grunnnetið er og hvað ekki, en það er, eins og svo margt annað, skilgreiningaratriði hvort það eigi að vera ljósleiðaranetið, koparvírinn eða allt flutningsnet þess inn til viðskiptavina þess.

Tilgangur rökræðu þeirra sem hafa talað fyrir því að undanskilja hluta flutningsnetsins við sölu Landssímans er góður og gildur, en hann er að mati flestra sem tjáð sig hafa, að tryggja að allir landsmenn njóti aðgengis að ásættanlegri þjónustu í fjarskiptamálum og ekki síður að allir aðilar á markaðnum hafi aðgengi að flutningsneti án hárra þröskulda inn á markaðinn svo raunveruleg samkeppni verði tryggð.

En er það að undanskilja hluta fyrirtækisins og stofna sérstakt fyrirtæki, með Landsnet í rafmagnsdreifingunni sem fyrirmynd, rétta leiðin að þessum markmiðum?

Dreifikerfi Landssíma Íslands sem og dreifikerfi annarra fjarskiptafyrirtækja er afar flókið og mun flóknari að allri gerð en dreifikerfi raforkunnar. Þræðirnir sjálfir eða senditíðnirnar eru ekki einu verðmætin, heldur ekki síður sendi-, móttöku- og meðhöndlunarbúnaðurinn sem er nátengdur þeirri þjónustu sem verið er að veita á viðkomandi þráðum hverju sinni, símaþjónustu, nettengingu, sjónvarpssendingum o.s.frv. Sá búnaður er nátengdur þeirri þjónustu sem hvert fyrirtæki veitir og er því nánast ómögulegt að slíta á tengsl milli dreifikerfisins og þjónustunnar án þess að mikil verðmæti glatist og má því ganga út frá því sem vísu að söluandvirði Landssímans með grunnneti sé mun meira en samanlagt verðmæti hvors hluta fyrir sig, verði þeim skipt upp.

Í dag eru mörg grunnnet í gangi sem eru að leysa svipuð verkefni og grunnnet Landssímans er að gera, þ.e. að flytja gögn á milli staða. Engin ástæða er fyrir ríkið að vera í beinni samkeppni við slíkan rekstur og því eðlilegra að leita annarra leiða til að standa undir þeim kröfum um þjónustu sem þjóðfélagið gerir.

Slíkar kröfur væru mótaðar og settar fram í framsýnni fjarskiptaáætlun, þar sem skilgreint yrði það þjónustustig sem allir þegnar landsins eigi að lágmarki að njóta. Væri sú þjónusta skilgreind óháð þeirri leið sem farin yrði í hverju tilviki til að ná því markmiði, hvort það sé með ADSL tengingu um koparnetið, ljósleiðaratengingu, gervihnattatengingu eða örbylgjusambandi. Skilgreind yrði stefna um að hver þegn hafi möguleika á ákveðnum gagnaflutningsmöguleikum, sem endurspegli þau viðmið sem eru í gildi á hverjum tíma, enda þróast möguleikarnir afar hratt og þar með kröfurnar til búnaðarins og óskynsamlegt að miða við ákveðna tæknilausn við þá stefnumótun, heldur taka pólitíska ákvörðun um markmiðið og láta aðila markaðarins velja þann búnað sem hentar.

Fyrir liggur að viðskiptalegur grundvöllur er fyrir því að gefa 95% þjóðarinnar kost á að tengjast netinu með ADSL-tengingu og má því ætla að stærsti hluti þjóðarinnar muni ávallt hafa aðgengi að nýjustu tækni í fjarskiptum á hreinum viðskiptalegum grunni en 5-10% þjóðarinnar sé búsettur á jaðarsvæðum þar sem gera þarf sérstakar ráðstafanir til að ná markmiðum fjarskiptaáætlunar

Einfaldasta og sanngjarnasta leiðin til að tryggja þá þjónustu sem fjarskiptaáætlun skilgreindi, væri að ríkið byði út í almennu útboði rekstur og niðurgreiðslur á fjarskiptum á þeim jaðarsvæðum sem um ræddi. Á þann hátt hafa allir aðilar á markaðnum möguleika á að nýta sína þekkingu og lausnir í samkeppninni um þau svæði um leið og ríkið lágmarkaði kostnað sinn við að uppfylla þá stefnumótun sem í gildi er á hverjum tíma.

Má líkja þessu við að í samgönguáætlun var skilgreind sú stefna að það ætti að vera hægt að komast til höfuðborgarinnar á innan við 4 tímum frá öllum þéttbýlisstöðum landsins, og lausnir hvers svæðis fyrir sig byggjast á flugi, vegum og siglingum eftir því hvað hentar best. Þar sem ekki er viðskiptalegur grundvöllur fyrir rekstri, t.d. ferjusiglinga eða flugs eru framkvæmd opinber útboð þar sem allir hafa möguleika á að bjóða í og hið opinbera lágmarkar kostnað sinn án þess að standa í rekstrinum sjálft.

Hvað aðgengið að markaðnum og aðgengi að flutningsnetum annarra fyrirtækja varðar, liggur beint við að í tengslum við söluna á Landssímanum komi Samkeppnisstofnun að því að skilgreina enn betur þann ramma sem fyrirtækin á markaðnum þurfi að starfa innan. Setja þarf skilyrði um að hleypa öðrum aðilum inn í dreifikerfin, kröfur um aðskilnað í bókhaldi sem grundvöll að sanngjarnri og eðlilegri gjaldtöku af notkuninni til að tryggja að það aðgengi sem önnur fyrirtæki hafa að flutningsneti Landssímans í dag haldist og verði gagnkvæmt.

Á þennan hátt er hægt að slá heilt flugnager í einu höggi: Selja Símann og losa um fjármuni sem ríkið getur ráðstafað með skynsamlegum hætti, skapað heilbrigt samkeppnisumhverfi á markaðnum og síðast en ekki síst að tryggja öllum þegnum landsins viðunandi fjarskiptaþjónustu í takt við kröfur tímans hverju sinni.

18 febrúar 2005

Sala Landsvirkjunnar ?

Í gær var undirrituð viljayfirlýsing iðnaðarráðherra, fjármálaráðherra, borgarstjórans í Reykjavík og bæjarstjóra Akureyrar um að ríkið leysi til sín eignarhluta hinna aðilanna í Landsvirkjun. Í framhaldinu verði starfsemi ríkisins á raforkumarkaði sameinuð undir einn hatt með samruna Landsvirkjunnar, Rarik og Orkubús Vestfjarða eftir að ríkið hefur leyst hluta sveitarfélaganna í Rarik og Orkubúi Vestfjarða til sín.

Um afar þarft og eðlilegt skref var að ræða, enda óeðlilegt að stjórnsýslustigum sé blandað saman með sameiginlegu eignarhaldi ríkis og sveitarfélaga og ekki síður að fyrirtæki og stofnanir í eigu sömu eigenda séu í innbyrðis samkeppni. Er hér bæði átt við samkeppni Landsvirkjunnar, Orkuveitu Reykjavíkur, Orkubús Vestfjarða og Rarik, en eins og kunnugt er á Rarik fjölda smárra virkjanna og varaaflstöðva um land allt sem og Orkubúið.

Er þetta skref því til mikilla bóta, enda verða skilin milli keppinauta á markaðnum skýrari og meiri líkur á því að samkeppnin á þessum markaði, sem eðli málsins samkvæmt er markaður fárra aðila, verði eðlileg og skili þeirri hagkvæmni sem óskað er.

En yfirlýsingar varaformanns Sjálfstæðisflokksins um að þetta sé fyrsta skrefið í hlutafélagavæðingu Landsvirkjunnar sem undanfara á sölu Landsvirkjunnar til einkaaðila vekur margar og afar flóknar spurningar, sem leita þarf svara við áður en lengra verður haldið á þeirri braut.

Rétt er að rifja upp að í stjórnarsáttmála Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins segir eftirfarandi um orkumál:

“Að lokið verði við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, þannig að heildstætt yfirlit fáist yfir nýtingarmöguleika landsmanna á þeim miklu verðmætum sem felast í beislun orku. Orkulindir hvers landsvæðis verði nýttar af skynsemi til að byggja upp atvinnu og efla mannlíf. Áhersla verði lögð á að saman fari nýting orkulindanna og náttúruvernd. Stefnt skal að frekari áföngum í vetnisvæðingu þjóðarinnar og að í framtíðinni byggist orkunotkun landsmanna á endurnýtanlegum orkugjöfum og verði þannig sjálfbær.”

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er fjallað um sölu Landssímans, en ekkert fjallað um sölu eða hlutafélagavæðingu Landsvirkjunnar. Ekkert er heldur að finna um slíkt í stefnu Framsóknarflokksins og verður því að ætla að varaformaður Sjálfstæðisflokksins sé að lýsa sínum persónulegu skoðunum eða kannski stefnu Sjálfstæðisflokksins með þessum yfirlýsingum. Um stórpólitískt mál að ræða sem ekki verður leitt til lykta með einni yfirlýsingu.

Landsvirkjun hefur ekki greitt raunverulegt gjald, auðlindagjald, fyrir sín virkjanaleyfi enda hefur verið víðtæk sátt um að afl stóru fossanna sé þjóðareign og eigi þeir að mala allri þjóðinni gull og eru kaup ríkisins á hlut sveitarfélaganna í rauninni eðlilegt skref til staðfestingar á þeirri sátt. Sama mætti segja um háhitann, hann eigi að blása í sín hljóðfæri, almenningi til heilla.

En þegar farið er að fjalla um sölu á Landsvirkjun til einkaaðila vaknar fjöldin allur af spurningum. Er eðlilegt að sumir einkaaðilar en ekki aðrir eigi að njóta þess að eiga í fyrirtæki sem nýtur ríkisábyrgðar á lánum, eða er ætlunin að Landsvirkjun fjármagni sig upp á nýtt án ríkisábyrgðar? Er víst að Landsvirkjun sé eins aðbært fyrirtæki án ríkisábyrðar á lánum? Hvað ætli fáist fyrir Landsvirkjun þá?

Er eðlilegt að einkaaðilar fái afhentan hlut í auðlindum sem eru í dag sameign þjóðarinnar? Nóg hefur verið fjallað um aðgengið að fisknum í sjónum, sem þó er auðlind sem einkaaðilar gerðu að þeim verðmætum sem hún er með atorku sinni og var úthlutað með hefðarréttinn að leiðarljósi við upptöku kvótakerfisins. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða.

Á hvaða verði á að verðleggja virkjanaheimildirnar svo sanngjarnt sé? Er rétt að miða við verðmæti þeirra tímabundnu orkusölusamninga sem eru í gildi í dag? Hvað ef hrein sjálfbær orka hækkar enn frekar í verði í kjölfar næsta skuldbindingatímabils Kyotobókunarinar? Hvað ef nýir orkugjafar finnast og orkuverð hrynur? Hvað ef kjarnorka verður bönnuð á alþjóðavísu í kjölfar einhvers hörmulegs slyss? Hvers virði er það land og þau náttúruvætti sem fórnað hefur verið fyrir þessa orku? Hver á að meta það og á hvaða forsendum? Hvernig á að endurmeta eignarnám sem gert hefur verið hingað til á grundvelli almannahagsmuna sem yrðu einkahagsmunir við sölu?

Það er alveg ljóst að stór hluti verðmæta Landsvirkjunnar og í rauninni tilvist fyrirtækisins er fólgin í því að það er og hefur verið almannafyrirtæki sem hefur í krafti almannahagsmuna haft aðgengi að náttúrunni með allt öðrum hætti en einkafyrirtæki hefði nokkurn tíma haft og verður ekki séð annað en að fjármálaráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn verður að útskýra sitt mál mun betur áður en hugsanlega verður hugað að því að halda lengra á þeirri braut sem varaformaður flokksins hefur lýst.

04 febrúar 2005

Sá sem mengar borgi

Með Kyoto bókuninni var sköpuð ný takmörkuð auðlind, en það er það magn gróðurhúsalofttegunda sem heimilt er að losa út í andrúmsloftið á ári hverju. Hverju þjóðríki er með Kyoto bókuninni gert að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda þannig að hún verði einungis 10% meiri að meðaltali 2008-2012 en hún var viðmiðunarárið 1990, með þeirri undantekningu þó að stóriðju sem byggir á umhverfisvænum orkugjöfum og er staðsett í litlum hagkerfum er heimilt að byggjast upp að ákveðnu marki.

Ríkisstjórnin markaði sér stefnu árið 2002 til að mæta þeim kvöðum sem þessi skuldbinding hefur í för með sér og felur hún í sér tillögur um eftirfarandi ráðstafanir á næstu árum sem leiða muni til lækkunar á útstreymi gróðurhúsalofttegunda eða aukningar á bindingu kolefnis. Þessar ráðstafanir eru:

  • Dregið verði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum með almennum aðgerðum og með breytingum á skattlagningu á dísilbílum, sem leiði til aukningar í innflutningi á slíkum bílum til einkanota.
  • Tryggt verði að fyrirtæki í áliðnaði geri fullnægjandi ráðstafanir til þess að halda útstreymi flúorkolefna frá framleiðslunni í lágmarki.
  • Leitað verði leiða til að draga úr orkunotkun í fiskiskipaflotanum.
  • Dregið verði úr urðun úrgangs og útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá urðunarstöðum.
  • Aukin verði binding kolefnis með skógrækt og landgræðslu.
  • Áhersla verði lögð á rannsóknir á þeim þáttum sem áhrif hafa á útstreymi gróðurhúsalofttegunda og þróun lausna og úrræða til að mæta því.
  • Efld verði fræðsla og upplýsingagjöf til almennings um leiðir til þess að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda.


Eru hér sem sagt lagðar til ýmsar aðgerðir sem eru margar hverjar afar flóknar í framkvæmd og eru komnar mislangt á veg, en ljóst er að talsverður kostnaður hlýst af þeim aðgerðum sem fara verður í til að Ísland standi við skuldbindingar sínar.

Hlýtur því að vera eðlileg spurning hvernig þeim kostnaði skuli mætt. Afar ósanngjarnt er að þessi kostnaður sé greiddur af samneyslunni, enda getur ekki verið eðlilegt að einstaklingur sem gengur eða hjólar í vinnunna eigi að taka jafnan þátt í honum og sá sem keyrir sömu leið í bíl sem losar koltvísýring. Eða er eðlilegt að fyrirtæki sem beitir umhverfisvænni tækni í sinni framleiðslu njóti þess í engu og greiði jafnan hlut í kostnaðinum og samkeppnisfyrirtækin sem beita verri tækni í umhverfislegu tilliti?

Eðlilegt er að hér verði farin sama leið og hefur gefið afar góða raun í meðhöndlun úrgangs, að sá sem mengi borgi. Stofnaður verði loftslagssjóður, sem kosti rannsóknir og aðgerðir til að binda koltvísýring eða að draga úr losun hans. Hugsanlegt væri að bjóða verkefni til bindingar kolefnis út og greiða fyrir hvert tonn sem bundið er á þann hátt, en styrkja aðra starfsemi um ákveðna upphæð á bundið eða sparað tonn.

Tekjum í sjóðinn væri aflað væri í gegnum losunargjald sem lagður sé á hvert losað tonn og væri gjaldið óháð því frá hvaða starfsemi losunin á sér stað. Ef losun Íslands stefndi á ranga braut væri hér jafnvel komið stjórntæki til að takmarka útblásturinn sem mest með hagrænum stjórntækjum, en ekki handvirkum sem oft eru ósanngjörn í eðli sínu.

Fara verður varlega í slíka gjaldheimtu svo samkeppnisstaða Íslands skaðist ekki gagnvart umheiminum, en hún verður þó best tryggð með því að Ísland beiti sér fyrir því að tilsvarandi aðferðum verði beitt sem víðast.

Á þennan hátt er skapaður hagrænn hvati til umhverfisverndar, þannig að þeir sem haga gjörðum sínum á umhverfisvænan hátt njóta þess á eigin skinni og þeim, sem stunda umhverfisbætandi starfsemi, er skapaður eðlilegur rekstrargrundvöllur fyrir henni og þeir, sem eru að nýta sér losunarkvóta Íslands, greiði fyrir aðgang að þeirri takmörkuðu auðlind.

01 febrúar 2005

Mikilvægi þess að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu

Í umræðunni síðustu mánuði hefur mikið verið rætt um þá staðreynd að innrásin í Írak hafi ekki farið fram undir stjórn né samþykkis Öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna. Ljóst varð að Frakkar myndu alltaf beita neitunarvaldi gegn innrásinni og þar sem ekki hægt að fara í þá löngu nauðsynlegu aðgerð að steypa harðstjóranum og fjöldamorðingjanum Saddam Hussein af stóli undir nafni Sameinuðu þjóðanna, til þess að framfylgja ályktunum Öryggisráðsins, tóku Bandaríkjamenn og Bretar frumkvæðið að því að ráðast inn í Írak. Með pólitískum stuðningi íslenskra stjórnvalda og fjölmargra annarra ríkja. Sá stuðningur var eðlilegur í ljósi hefða okkar og tengsla við þessi ríki, en hann þarf ekki að merkja að íslensk stjórnvöld hafi sérstaka velþóknun á þeim aðilum sem eru við stjórnvölinn í viðkomandi ríkjum á hverjum tíma.

Af hverju skyldu Frakkar hafa staðið hart á móti innrás í Írak? Ætli það hafi verið til að bíða eftir því að vopnaeftirlitsmenn myndu finna þau vopn sem Vesturveldin vissu að þau höfðu selt þeim? Ætli það hafi verið til að gefa Saddam Hussein enn eitt tækifærið til að átta sig á misgjörðum sínum, segja sorrý og hætta? Nei. Það var af einfaldri ástæðu: Hagsmunagæslu. Frakkar höfðu veitt Írak milljarða dala lán og sömuleiðis gert olíusölusamninga við Íraka um nánast allan þeirra olíuútflutning sem gat numið gífurlegum fjárhæðum. Olíusölusamningana gat Frakkland ekki nýtt sér vegna viðskiptabannsins sem í gildi var, nema það sem "olía fyrir lyf" leyfði, en um leið og því yrði aflétt, hefði Frakkland verið í lykilstöðu á svæðinu og gat einnig séð fram á að fá lán sín til Írak greidd og gott betur. Hvoru tveggja sáu þeir að yrði í uppnámi væri ráðist inn í Írak sem og varð raunin.

Þjóðverjar fylgdu Frökkum að máli, líklegast vegna þess að umræðan um stjórnarskrá og mótun Evrópusambandsins á afar viðkvæmu stigi á þessum tíma og stóðu þessi ríki þétt saman í því að tryggja hagsmuni stóru ríkjanna í breyttu Evrópusambandi.

Horfa verður á aðdraganda árásarinnar og skort á samþykkt Öryggisráðsins á innrásinni í þessu ljósi.

Gefur þetta okkur tilefni til að huga að rammanum í kringum starfshætti Öryggisráðsins, þar sem eitt ríki getur vegna eigin hagsmunagæslu komið í veg fyrir nauðsynlegar aðgerðir sem eiga heima undir nafni Sameinuðu Þjóðanna, en ekki annarra aðila, eins og t.d. Bandaríkjamanna og fylgisríkja þeirra, sem nú eru í lykilaðstöðu til að gæta sinna hagsmuna á svæðinu.

Fleiri dæmi um afleiðingar af þessu fyrirkomulagi má nefna og er besta dæmið hvernig Bandaríkjamenn hafa ítrekað haldið verndarhendi yfir Ísrael meðan þeir herja á Palestínumenn og komið í veg fyrir ályktanir sem beinast gegn ofbeldisverkum ísraelskra yfirfalda, sem ganga á lagið og fara fram nánast eins og þeim hentar.

Er ljóst að þessu verður að breyta og gefur framboð Íslands til setu í Öryggisráðið okkur tækifæri til að leggja okkar lóð á þá vogarskál. Í leiðinni gefst okkur löngu tímabært tækifæri til þess að ljúka uppbyggingu og endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar og tryggja að áhersla á öryggis- og varnarmál fái þar aukið vægi og að utanríkisþjónustan hafi á að skipa sérfræðingum á því sviði.

Á það hefur skort til þessa og því höfum við þurft að reiða okkur á Breta og Bandaríkjamenn í þessum efnum. Sú skipan var nauðsynleg á sínum tíma en ekki lengur. Við höfum verið lýðveldi í sextíu ár og erum orðin fullfær um að axla fulla ábyrgð fullvalda þjóðar í öryggis- og varnarmálum eins og á öðrum sviðum.

Með því að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu og laga utanríkisþjónustu okkar að því verkefni er stigið löngu tímabært skref, sem segja má að hafi orðið óhjákvæmilegt að stíga eftir að árásin á Ameríku 11. september gjörbreytti heimsmyndinni. Efling utanríkisþjónustunnar til að sinna verkefnum á sviði öryggis- og varnarmála er svo mikilvæg að hvort sem við hreppum á endanum sæti í Öryggisráðinu eða ekki er betur af stað farið en heima setið ef niðurstaðan úr því verkefni verður utanríkisþjónusta sem er ekki jafnháð bandamönnum okkar um öryggisupplýsingar og túlkun þeirra og nú er raunin.