Gestur Guðjónsson

18 febrúar 2005

Sala Landsvirkjunnar ?

Í gær var undirrituð viljayfirlýsing iðnaðarráðherra, fjármálaráðherra, borgarstjórans í Reykjavík og bæjarstjóra Akureyrar um að ríkið leysi til sín eignarhluta hinna aðilanna í Landsvirkjun. Í framhaldinu verði starfsemi ríkisins á raforkumarkaði sameinuð undir einn hatt með samruna Landsvirkjunnar, Rarik og Orkubús Vestfjarða eftir að ríkið hefur leyst hluta sveitarfélaganna í Rarik og Orkubúi Vestfjarða til sín.

Um afar þarft og eðlilegt skref var að ræða, enda óeðlilegt að stjórnsýslustigum sé blandað saman með sameiginlegu eignarhaldi ríkis og sveitarfélaga og ekki síður að fyrirtæki og stofnanir í eigu sömu eigenda séu í innbyrðis samkeppni. Er hér bæði átt við samkeppni Landsvirkjunnar, Orkuveitu Reykjavíkur, Orkubús Vestfjarða og Rarik, en eins og kunnugt er á Rarik fjölda smárra virkjanna og varaaflstöðva um land allt sem og Orkubúið.

Er þetta skref því til mikilla bóta, enda verða skilin milli keppinauta á markaðnum skýrari og meiri líkur á því að samkeppnin á þessum markaði, sem eðli málsins samkvæmt er markaður fárra aðila, verði eðlileg og skili þeirri hagkvæmni sem óskað er.

En yfirlýsingar varaformanns Sjálfstæðisflokksins um að þetta sé fyrsta skrefið í hlutafélagavæðingu Landsvirkjunnar sem undanfara á sölu Landsvirkjunnar til einkaaðila vekur margar og afar flóknar spurningar, sem leita þarf svara við áður en lengra verður haldið á þeirri braut.

Rétt er að rifja upp að í stjórnarsáttmála Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins segir eftirfarandi um orkumál:

“Að lokið verði við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, þannig að heildstætt yfirlit fáist yfir nýtingarmöguleika landsmanna á þeim miklu verðmætum sem felast í beislun orku. Orkulindir hvers landsvæðis verði nýttar af skynsemi til að byggja upp atvinnu og efla mannlíf. Áhersla verði lögð á að saman fari nýting orkulindanna og náttúruvernd. Stefnt skal að frekari áföngum í vetnisvæðingu þjóðarinnar og að í framtíðinni byggist orkunotkun landsmanna á endurnýtanlegum orkugjöfum og verði þannig sjálfbær.”

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er fjallað um sölu Landssímans, en ekkert fjallað um sölu eða hlutafélagavæðingu Landsvirkjunnar. Ekkert er heldur að finna um slíkt í stefnu Framsóknarflokksins og verður því að ætla að varaformaður Sjálfstæðisflokksins sé að lýsa sínum persónulegu skoðunum eða kannski stefnu Sjálfstæðisflokksins með þessum yfirlýsingum. Um stórpólitískt mál að ræða sem ekki verður leitt til lykta með einni yfirlýsingu.

Landsvirkjun hefur ekki greitt raunverulegt gjald, auðlindagjald, fyrir sín virkjanaleyfi enda hefur verið víðtæk sátt um að afl stóru fossanna sé þjóðareign og eigi þeir að mala allri þjóðinni gull og eru kaup ríkisins á hlut sveitarfélaganna í rauninni eðlilegt skref til staðfestingar á þeirri sátt. Sama mætti segja um háhitann, hann eigi að blása í sín hljóðfæri, almenningi til heilla.

En þegar farið er að fjalla um sölu á Landsvirkjun til einkaaðila vaknar fjöldin allur af spurningum. Er eðlilegt að sumir einkaaðilar en ekki aðrir eigi að njóta þess að eiga í fyrirtæki sem nýtur ríkisábyrgðar á lánum, eða er ætlunin að Landsvirkjun fjármagni sig upp á nýtt án ríkisábyrgðar? Er víst að Landsvirkjun sé eins aðbært fyrirtæki án ríkisábyrðar á lánum? Hvað ætli fáist fyrir Landsvirkjun þá?

Er eðlilegt að einkaaðilar fái afhentan hlut í auðlindum sem eru í dag sameign þjóðarinnar? Nóg hefur verið fjallað um aðgengið að fisknum í sjónum, sem þó er auðlind sem einkaaðilar gerðu að þeim verðmætum sem hún er með atorku sinni og var úthlutað með hefðarréttinn að leiðarljósi við upptöku kvótakerfisins. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða.

Á hvaða verði á að verðleggja virkjanaheimildirnar svo sanngjarnt sé? Er rétt að miða við verðmæti þeirra tímabundnu orkusölusamninga sem eru í gildi í dag? Hvað ef hrein sjálfbær orka hækkar enn frekar í verði í kjölfar næsta skuldbindingatímabils Kyotobókunarinar? Hvað ef nýir orkugjafar finnast og orkuverð hrynur? Hvað ef kjarnorka verður bönnuð á alþjóðavísu í kjölfar einhvers hörmulegs slyss? Hvers virði er það land og þau náttúruvætti sem fórnað hefur verið fyrir þessa orku? Hver á að meta það og á hvaða forsendum? Hvernig á að endurmeta eignarnám sem gert hefur verið hingað til á grundvelli almannahagsmuna sem yrðu einkahagsmunir við sölu?

Það er alveg ljóst að stór hluti verðmæta Landsvirkjunnar og í rauninni tilvist fyrirtækisins er fólgin í því að það er og hefur verið almannafyrirtæki sem hefur í krafti almannahagsmuna haft aðgengi að náttúrunni með allt öðrum hætti en einkafyrirtæki hefði nokkurn tíma haft og verður ekki séð annað en að fjármálaráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn verður að útskýra sitt mál mun betur áður en hugsanlega verður hugað að því að halda lengra á þeirri braut sem varaformaður flokksins hefur lýst.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home