Gestur Guðjónsson

23 febrúar 2005

Grunnnet Landssíma Íslands hf

Í umræðum um sölu Landssíma Íslands hf. hefur mikið verið til umræðu hvort undanskilja eigi grunnnet fyrirtækisins frá fyrirtækinu áður en það verður selt. Ekki hefur fengist nein samhljóma skilgreining á því hvað grunnnetið er og hvað ekki, en það er, eins og svo margt annað, skilgreiningaratriði hvort það eigi að vera ljósleiðaranetið, koparvírinn eða allt flutningsnet þess inn til viðskiptavina þess.

Tilgangur rökræðu þeirra sem hafa talað fyrir því að undanskilja hluta flutningsnetsins við sölu Landssímans er góður og gildur, en hann er að mati flestra sem tjáð sig hafa, að tryggja að allir landsmenn njóti aðgengis að ásættanlegri þjónustu í fjarskiptamálum og ekki síður að allir aðilar á markaðnum hafi aðgengi að flutningsneti án hárra þröskulda inn á markaðinn svo raunveruleg samkeppni verði tryggð.

En er það að undanskilja hluta fyrirtækisins og stofna sérstakt fyrirtæki, með Landsnet í rafmagnsdreifingunni sem fyrirmynd, rétta leiðin að þessum markmiðum?

Dreifikerfi Landssíma Íslands sem og dreifikerfi annarra fjarskiptafyrirtækja er afar flókið og mun flóknari að allri gerð en dreifikerfi raforkunnar. Þræðirnir sjálfir eða senditíðnirnar eru ekki einu verðmætin, heldur ekki síður sendi-, móttöku- og meðhöndlunarbúnaðurinn sem er nátengdur þeirri þjónustu sem verið er að veita á viðkomandi þráðum hverju sinni, símaþjónustu, nettengingu, sjónvarpssendingum o.s.frv. Sá búnaður er nátengdur þeirri þjónustu sem hvert fyrirtæki veitir og er því nánast ómögulegt að slíta á tengsl milli dreifikerfisins og þjónustunnar án þess að mikil verðmæti glatist og má því ganga út frá því sem vísu að söluandvirði Landssímans með grunnneti sé mun meira en samanlagt verðmæti hvors hluta fyrir sig, verði þeim skipt upp.

Í dag eru mörg grunnnet í gangi sem eru að leysa svipuð verkefni og grunnnet Landssímans er að gera, þ.e. að flytja gögn á milli staða. Engin ástæða er fyrir ríkið að vera í beinni samkeppni við slíkan rekstur og því eðlilegra að leita annarra leiða til að standa undir þeim kröfum um þjónustu sem þjóðfélagið gerir.

Slíkar kröfur væru mótaðar og settar fram í framsýnni fjarskiptaáætlun, þar sem skilgreint yrði það þjónustustig sem allir þegnar landsins eigi að lágmarki að njóta. Væri sú þjónusta skilgreind óháð þeirri leið sem farin yrði í hverju tilviki til að ná því markmiði, hvort það sé með ADSL tengingu um koparnetið, ljósleiðaratengingu, gervihnattatengingu eða örbylgjusambandi. Skilgreind yrði stefna um að hver þegn hafi möguleika á ákveðnum gagnaflutningsmöguleikum, sem endurspegli þau viðmið sem eru í gildi á hverjum tíma, enda þróast möguleikarnir afar hratt og þar með kröfurnar til búnaðarins og óskynsamlegt að miða við ákveðna tæknilausn við þá stefnumótun, heldur taka pólitíska ákvörðun um markmiðið og láta aðila markaðarins velja þann búnað sem hentar.

Fyrir liggur að viðskiptalegur grundvöllur er fyrir því að gefa 95% þjóðarinnar kost á að tengjast netinu með ADSL-tengingu og má því ætla að stærsti hluti þjóðarinnar muni ávallt hafa aðgengi að nýjustu tækni í fjarskiptum á hreinum viðskiptalegum grunni en 5-10% þjóðarinnar sé búsettur á jaðarsvæðum þar sem gera þarf sérstakar ráðstafanir til að ná markmiðum fjarskiptaáætlunar

Einfaldasta og sanngjarnasta leiðin til að tryggja þá þjónustu sem fjarskiptaáætlun skilgreindi, væri að ríkið byði út í almennu útboði rekstur og niðurgreiðslur á fjarskiptum á þeim jaðarsvæðum sem um ræddi. Á þann hátt hafa allir aðilar á markaðnum möguleika á að nýta sína þekkingu og lausnir í samkeppninni um þau svæði um leið og ríkið lágmarkaði kostnað sinn við að uppfylla þá stefnumótun sem í gildi er á hverjum tíma.

Má líkja þessu við að í samgönguáætlun var skilgreind sú stefna að það ætti að vera hægt að komast til höfuðborgarinnar á innan við 4 tímum frá öllum þéttbýlisstöðum landsins, og lausnir hvers svæðis fyrir sig byggjast á flugi, vegum og siglingum eftir því hvað hentar best. Þar sem ekki er viðskiptalegur grundvöllur fyrir rekstri, t.d. ferjusiglinga eða flugs eru framkvæmd opinber útboð þar sem allir hafa möguleika á að bjóða í og hið opinbera lágmarkar kostnað sinn án þess að standa í rekstrinum sjálft.

Hvað aðgengið að markaðnum og aðgengi að flutningsnetum annarra fyrirtækja varðar, liggur beint við að í tengslum við söluna á Landssímanum komi Samkeppnisstofnun að því að skilgreina enn betur þann ramma sem fyrirtækin á markaðnum þurfi að starfa innan. Setja þarf skilyrði um að hleypa öðrum aðilum inn í dreifikerfin, kröfur um aðskilnað í bókhaldi sem grundvöll að sanngjarnri og eðlilegri gjaldtöku af notkuninni til að tryggja að það aðgengi sem önnur fyrirtæki hafa að flutningsneti Landssímans í dag haldist og verði gagnkvæmt.

Á þennan hátt er hægt að slá heilt flugnager í einu höggi: Selja Símann og losa um fjármuni sem ríkið getur ráðstafað með skynsamlegum hætti, skapað heilbrigt samkeppnisumhverfi á markaðnum og síðast en ekki síst að tryggja öllum þegnum landsins viðunandi fjarskiptaþjónustu í takt við kröfur tímans hverju sinni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home