Í umræðunni síðustu mánuði hefur mikið verið rætt um þá staðreynd að innrásin í Írak hafi ekki farið fram undir stjórn né samþykkis Öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna. Ljóst varð að Frakkar myndu alltaf beita neitunarvaldi gegn innrásinni og þar sem ekki hægt að fara í þá löngu nauðsynlegu aðgerð að steypa harðstjóranum og fjöldamorðingjanum Saddam Hussein af stóli undir nafni Sameinuðu þjóðanna, til þess að framfylgja ályktunum Öryggisráðsins, tóku Bandaríkjamenn og Bretar frumkvæðið að því að ráðast inn í Írak. Með pólitískum stuðningi íslenskra stjórnvalda og fjölmargra annarra ríkja. Sá stuðningur var eðlilegur í ljósi hefða okkar og tengsla við þessi ríki, en hann þarf ekki að merkja að íslensk stjórnvöld hafi sérstaka velþóknun á þeim aðilum sem eru við stjórnvölinn í viðkomandi ríkjum á hverjum tíma.
Af hverju skyldu Frakkar hafa staðið hart á móti innrás í Írak? Ætli það hafi verið til að bíða eftir því að vopnaeftirlitsmenn myndu finna þau vopn sem Vesturveldin vissu að þau höfðu selt þeim? Ætli það hafi verið til að gefa Saddam Hussein enn eitt tækifærið til að átta sig á misgjörðum sínum, segja sorrý og hætta? Nei. Það var af einfaldri ástæðu: Hagsmunagæslu. Frakkar höfðu veitt Írak milljarða dala lán og sömuleiðis gert olíusölusamninga við Íraka um nánast allan þeirra olíuútflutning sem gat numið gífurlegum fjárhæðum. Olíusölusamningana gat Frakkland ekki nýtt sér vegna viðskiptabannsins sem í gildi var, nema það sem "olía fyrir lyf" leyfði, en um leið og því yrði aflétt, hefði Frakkland verið í lykilstöðu á svæðinu og gat einnig séð fram á að fá lán sín til Írak greidd og gott betur. Hvoru tveggja sáu þeir að yrði í uppnámi væri ráðist inn í Írak sem og varð raunin.
Þjóðverjar fylgdu Frökkum að máli, líklegast vegna þess að umræðan um stjórnarskrá og mótun Evrópusambandsins á afar viðkvæmu stigi á þessum tíma og stóðu þessi ríki þétt saman í því að tryggja hagsmuni stóru ríkjanna í breyttu Evrópusambandi.
Horfa verður á aðdraganda árásarinnar og skort á samþykkt Öryggisráðsins á innrásinni í þessu ljósi.
Gefur þetta okkur tilefni til að huga að rammanum í kringum starfshætti Öryggisráðsins, þar sem eitt ríki getur vegna eigin hagsmunagæslu komið í veg fyrir nauðsynlegar aðgerðir sem eiga heima undir nafni Sameinuðu Þjóðanna, en ekki annarra aðila, eins og t.d. Bandaríkjamanna og fylgisríkja þeirra, sem nú eru í lykilaðstöðu til að gæta sinna hagsmuna á svæðinu.
Fleiri dæmi um afleiðingar af þessu fyrirkomulagi má nefna og er besta dæmið hvernig Bandaríkjamenn hafa ítrekað haldið verndarhendi yfir Ísrael meðan þeir herja á Palestínumenn og komið í veg fyrir ályktanir sem beinast gegn ofbeldisverkum ísraelskra yfirfalda, sem ganga á lagið og fara fram nánast eins og þeim hentar.
Er ljóst að þessu verður að breyta og gefur framboð Íslands til setu í Öryggisráðið okkur tækifæri til að leggja okkar lóð á þá vogarskál. Í leiðinni gefst okkur löngu tímabært tækifæri til þess að ljúka uppbyggingu og endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar og tryggja að áhersla á öryggis- og varnarmál fái þar aukið vægi og að utanríkisþjónustan hafi á að skipa sérfræðingum á því sviði.
Á það hefur skort til þessa og því höfum við þurft að reiða okkur á Breta og Bandaríkjamenn í þessum efnum. Sú skipan var nauðsynleg á sínum tíma en ekki lengur. Við höfum verið lýðveldi í sextíu ár og erum orðin fullfær um að axla fulla ábyrgð fullvalda þjóðar í öryggis- og varnarmálum eins og á öðrum sviðum.
Með því að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu og laga utanríkisþjónustu okkar að því verkefni er stigið löngu tímabært skref, sem segja má að hafi orðið óhjákvæmilegt að stíga eftir að árásin á Ameríku 11. september gjörbreytti heimsmyndinni. Efling utanríkisþjónustunnar til að sinna verkefnum á sviði öryggis- og varnarmála er svo mikilvæg að hvort sem við hreppum á endanum sæti í Öryggisráðinu eða ekki er betur af stað farið en heima setið ef niðurstaðan úr því verkefni verður utanríkisþjónusta sem er ekki jafnháð bandamönnum okkar um öryggisupplýsingar og túlkun þeirra og nú er raunin.