Gestur Guðjónsson

29 nóvember 2005

Bönnum tóbaksreykingar á veitingahúsum

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fram frumvarp um bann við tóbaksreykingum á veitingahúsum. Verður vonandi mælt fyrir því innan skamms þannig að allt vinnandi fólk eigi nú kost á reyklausu vinnuumhverfi.

Á síðasta löggjafarþingi lagði Siv Friðleifsdóttir ásamt Ástu R Jóhannesdóttur, Jónínu Bjartmarz og Þuríði Backman fram frumvarp til laga sama efnis, en það hlaut ekki brautargengi. Það má því segja að þessir þingmenn hafi samt sem áður haft erindi sem erfiði með samþykki ríkisstjórnarinnar á því að leggja frumvarpið fram í sínu nafni. Er greinilegt að sú umræða sem varð um málið þá hefur leitt fólki það fyrir sjónir um hversu rakið mál er að ræða.

Ástæður og rök fyrir banninu eru mörg en aðalrökin, vinnuverndarrökin, eru augljós og sjálfsögð, en fjöldi rannsókna á heilsu og efnainnihaldi í blóði starfsfólks á veitingahúsum hefur sýnt fram á með óyggjandi hætti að slíkt bann hefur mælanleg áhrif á veikindi og magn eiturefna í blóði starfsfólks. Eru þau rök ein og sér það sterk að ómögulegt er skynsömu fólki að standa á móti málinu. Í rauninni er fáránlegt að þetta bann skuli ekki fyrir löngu vera gengið í gildi, enda skaðsemi reykinga ótvíræð og sífellt fleiri rannsóknir að sýna fram á skaðsemi þeirra fyrir reykingamenn sjálfa og ekki síður fyrir þá sem anda að sér reyk annarra.

Má segja að andstaða við þetta bann sé svipað því að standa á móti banni við notkun asbests í byggingariðnaði og banni við notkun ýmissa eiturefna í iðnaðarstarfsemi, sem þó eru mörg hver mun skaðminni en tóbaksreykur.

Fleiri rök mæla með því að þetta bann verði tekið upp, ekki síst þau að almennum neytendum, sem vilja sýna sig og sjá aðra á knæpu eða njóta góðrar máltíðar á veitingahúsi yrði gert það mögulegt án þess að það þurfi að taka áhættu með heilsu sína og það vegna efnis sem væri örugglega bannfært sem eiturlyf, væri tóbak að koma fram í dag.

Írar gátu þetta

Ástæða þess að mér er þetta mál sérstaklega hugleikið er að fyrir skömmu fór ég í helgarferð til Dyflinnar á Írlandi. Það væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, nema að morguninn eftir kráarrölt, sem er jú nánast skylda í slíkri heimsókn, vaknaði ég upp, án þess að öll föt væru angandi af tóbakslykt, þyngsli fyrir höfði voru nánast engin, sem var með ólíkindum þar sem bjór fer nú oft þannig í undirritaðan.

En þarna var hópur fólks fyrir utan hverja krá, hjúfrandi sig hvert utan í öðru að púa undir hitalampa og hæstánægt með ástandið og undarlegt nokk voru það ekki síður reykingamenn sem hrósuðu banninu og ekki laust við að það væri bara ágætir möguleikar á því að kynnast nýju fólki á nýjan hátt þar fyrir utan.

Af hverju ekki?

Einstaka aðilar hafa lýst sig andsnúna banninu. Hafa rök þeirra helst verið á þá veru að það þurfi ekki að banna þetta, markaðurinn sjái um það af sjálfu sér. Á sama hátt ætti þá að heimila á ný notkun hinna ýmsu eiturefna sem nú er blessunarlega búið að útrýma úr íslensku vinnuumhverfi, fara á ný að blanda blýi í bensín og byggja úr asbesti. Enda er um að ræða óþolandi afskiptasemi af einkalífi fólks, eða hvað? Mér þætti gaman að heyra svör lungnakrabbameinssjúklinga við þeirri spurningu, en ætla að vona að Alþingi bíði ekki eftir því en komi þessu þjóðþrifamáli sem fyrst í lög.

23 nóvember 2005

Kastljós - kennslustund fyrir glæpamenn

Í umfjöllun hafa verið undanfarna daga hrikalegir glæpir þar sem svefnlyf eru notuð til að gera konur að auðveldum fórnarlömbum fyrir nauðganir og aðra ófyrirgefanlega glæpi.

Nauðsynlegt er að vara fólk við þessum glæpum og verður að telja myndbirtingu DV í tengslum við umfjöllun um málið eðlilega. En aftur á móti var umfjöllun Kastljóssins þar sem farið var yfir hvaða lyf væri best að nota og hvernig eigi að nota efnin, ekki rétta leiðin.

Þarna fór læknir yfir það hversu auðvelt er fyrir afbrotamenn að fremja þessa glæpi, hvaða lyf á að nota og hvernig áhrifin af þeim eru. Sem sagt kennsla í hvernig eigi að fremja glæpinn. Þetta er umfjöllun ekki ósvipuð og hefur því miður átt sér stað í tengslum við fíkniefni, þar sem ungmennum er kennd notkun efnanna, líklegast í þeim góða tilgangi að ætla að fræða foreldra um hvaða tæki eru notuð svo þeir átti sig á því hvað sé á seyði. Hefur reynslan af því einmitt orðið til þess að auka forvitni ungmenna á þessum málum.

Umfjöllunin á eftir var eðlilegri, enda þar fjallað um hvað fórnarlömbin eigi að gera eftir að glæpurinn hefur átt sér stað, en að kenna fólki að fremja glæp í fjölmiðlum má ekki.
Skamm...

07 nóvember 2005

Einstaklingsbundinn persónuafsláttur

Velferðarkerfið og þar með bótakerfið, með atvinnuleysis-, örorku-, barna-, húsaleigu- og öðrum bótum tekur til sín stóran hluta þeirra skatttekna sem greiddar eru í ríkissjóð. Er það vel og er ekki hægt að sjá eftir þeim fjármunum, svo lengi sem þeir renna til fólks sem sannarlega og réttilega hefur þörf fyrir þá, enda vil ég að samfélagið grípi mig í net sitt, komi eitthvað fyrir hjá mér. Hið sama á að sjálfsögðu að gilda um aðra og er það í samræmi við grundvallarstefnuskrá og í anda allra starfa Framsóknarflokksins.

Um leið má velferðarkerfið samt ekki vera þannig gert að það dragi mig til sín, með fátækragildrum tekjutenginga og jaðarskatta sem letja fólk til vinnu og sjálfsbjargar og endurhæfingar. Því miður eru enn mörg dæmi um það og fjöldi manns hefur misst sjálfsvirðinguna í fjötrum þessara aðstæðna og leiðst út í líf og athafnir sem engum er bjóðandi og verður það ávallt að vera forgangsmál að sporna gegn því. Ekki bara vegna einstaklinganna sjálfra og hamingju þeirra, heldur einnig aðstandenda og samfélagsins alls sem í stað þess að njóta framleiðslu þessara einstaklinga þarf að halda þeim uppi þar sem í augum þeirra borgar sig ekki að vinna, betra sé að vera á bótum og vinna jafnvel svart með.

Ástæður þessa eru þær að skattkerfið og tryggingakerfið eru illa samhæfð ásamt því að tryggingakerfið er afar tekjutengt.

Grundvöllur þessara umræðna er skilgreining á grunnframfærslu, sem ekki er enn samhæfð milli hinna ýmsu kerfa samfélagsins og er umræðan því oft um epli og appelsínur í belg og biðu. Er eðlilegt að einhverri stofnun ríkisins, Hagstofunni eða einhverri ámóta, verði falið að stýra þeirri vinnu að skilgreina framfærslugrunn sem allt samfélagið gæti miðað við. Var ályktun þess efnis samþykkt á síðasta flokksþingi og er nauðsynlegt að klára þá vinnu sem fyrst. Ljóst er að grunnframfærsla er afar mismunandi eftir aldri, fjölda barna á framfærslu eða meðlagsgreiðslur, heimilisaðstæður, búsetuaðstæður, námslánabyrði o.s.frv. og verður að taka tillit til þess.

Væri því mun eðlilegra að sameina þessi kerfi eins og kostur er í skattkerfinu og miða við að hver einstaklingur hafi sinn persónuafslátt, sem er reiknaður út frá grunnframfærslu hvers og eins, þar sem tekið væri tillit til þeirra þátta sem áður voru talin upp og fleiri. Einnig þyrfti að taka tillit til vinnufærni, þannig að fólk með skerta starfsorku fengi hærri persónuafslátt, enda örðugra um vik að afla sér tekna og í leiðinni heldur ekki algerlega sanngjarnt að fara fram á það að atvinnurekendur borgi þeim sama tímakaup og fólki með fulla starfsorku. Á þann hátt væri fyrirtækjum einnig umbunað fyrir að virkja áður óvirka einstaklinga.

Greiðsla þess reiknaða skatts sem yrði eftir þegar persónuafslátturinn væri dreginn frá má svo líta á sem tekjur fyrir ríkið um leið og hún væri mun virkara tekjujöfnunartæki, þar sem búið væri að taka tillit til hinna ýmsu einstaklingsbundnu aðstæðna.

Þeir aðilar sem svo geta ekki verið á vinnumarkaði yrðu samkvæmt þessu, því atvinnulausir og fengju bætur sem slíkir og hvatningu og þjálfurnarúrræði til jafns við aðra atvinnulausa og þeir sem geta bara verið í hlutastarfi fengju notið þess.

Í framhaldinu væri hægt að sameina Skattinn og Tryggingastofnun sem gæti einbeitt sér á samhæfðari hátt gegn misnotkun um leið og hagræðing við sameiningu stofnananna ásamt hagræði við það að með þessu væri velta innheimtustofnanna mun minni að maður tali ekki um hversu einfaldara væri að rata um frumskóg kerfisins.

Á þennan hátt eða einhvern svipaðan væri sem sagt hægt að ná betur markmiðum velferðarkerfisins, einfalda kerfið og gera það sanngjarnara og hagræða í stofnunum ríkisins.