Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fram frumvarp um bann við tóbaksreykingum á veitingahúsum. Verður vonandi mælt fyrir því innan skamms þannig að allt vinnandi fólk eigi nú kost á reyklausu vinnuumhverfi.
Á síðasta löggjafarþingi lagði Siv Friðleifsdóttir ásamt Ástu R Jóhannesdóttur, Jónínu Bjartmarz og Þuríði Backman fram frumvarp til laga sama efnis, en það hlaut ekki brautargengi. Það má því segja að þessir þingmenn hafi samt sem áður haft erindi sem erfiði með samþykki ríkisstjórnarinnar á því að leggja frumvarpið fram í sínu nafni. Er greinilegt að sú umræða sem varð um málið þá hefur leitt fólki það fyrir sjónir um hversu rakið mál er að ræða.
Ástæður og rök fyrir banninu eru mörg en aðalrökin, vinnuverndarrökin, eru augljós og sjálfsögð, en fjöldi rannsókna á heilsu og efnainnihaldi í blóði starfsfólks á veitingahúsum hefur sýnt fram á með óyggjandi hætti að slíkt bann hefur mælanleg áhrif á veikindi og magn eiturefna í blóði starfsfólks. Eru þau rök ein og sér það sterk að ómögulegt er skynsömu fólki að standa á móti málinu. Í rauninni er fáránlegt að þetta bann skuli ekki fyrir löngu vera gengið í gildi, enda skaðsemi reykinga ótvíræð og sífellt fleiri rannsóknir að sýna fram á skaðsemi þeirra fyrir reykingamenn sjálfa og ekki síður fyrir þá sem anda að sér reyk annarra.
Má segja að andstaða við þetta bann sé svipað því að standa á móti banni við notkun asbests í byggingariðnaði og banni við notkun ýmissa eiturefna í iðnaðarstarfsemi, sem þó eru mörg hver mun skaðminni en tóbaksreykur.
Fleiri rök mæla með því að þetta bann verði tekið upp, ekki síst þau að almennum neytendum, sem vilja sýna sig og sjá aðra á knæpu eða njóta góðrar máltíðar á veitingahúsi yrði gert það mögulegt án þess að það þurfi að taka áhættu með heilsu sína og það vegna efnis sem væri örugglega bannfært sem eiturlyf, væri tóbak að koma fram í dag.
Írar gátu þetta
Ástæða þess að mér er þetta mál sérstaklega hugleikið er að fyrir skömmu fór ég í helgarferð til Dyflinnar á Írlandi. Það væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, nema að morguninn eftir kráarrölt, sem er jú nánast skylda í slíkri heimsókn, vaknaði ég upp, án þess að öll föt væru angandi af tóbakslykt, þyngsli fyrir höfði voru nánast engin, sem var með ólíkindum þar sem bjór fer nú oft þannig í undirritaðan.
En þarna var hópur fólks fyrir utan hverja krá, hjúfrandi sig hvert utan í öðru að púa undir hitalampa og hæstánægt með ástandið og undarlegt nokk voru það ekki síður reykingamenn sem hrósuðu banninu og ekki laust við að það væri bara ágætir möguleikar á því að kynnast nýju fólki á nýjan hátt þar fyrir utan.
Af hverju ekki?
Einstaka aðilar hafa lýst sig andsnúna banninu. Hafa rök þeirra helst verið á þá veru að það þurfi ekki að banna þetta, markaðurinn sjái um það af sjálfu sér. Á sama hátt ætti þá að heimila á ný notkun hinna ýmsu eiturefna sem nú er blessunarlega búið að útrýma úr íslensku vinnuumhverfi, fara á ný að blanda blýi í bensín og byggja úr asbesti. Enda er um að ræða óþolandi afskiptasemi af einkalífi fólks, eða hvað? Mér þætti gaman að heyra svör lungnakrabbameinssjúklinga við þeirri spurningu, en ætla að vona að Alþingi bíði ekki eftir því en komi þessu þjóðþrifamáli sem fyrst í lög.