Velferðarkerfið og þar með bótakerfið, með atvinnuleysis-, örorku-, barna-, húsaleigu- og öðrum bótum tekur til sín stóran hluta þeirra skatttekna sem greiddar eru í ríkissjóð. Er það vel og er ekki hægt að sjá eftir þeim fjármunum, svo lengi sem þeir renna til fólks sem sannarlega og réttilega hefur þörf fyrir þá, enda vil ég að samfélagið grípi mig í net sitt, komi eitthvað fyrir hjá mér. Hið sama á að sjálfsögðu að gilda um aðra og er það í samræmi við grundvallarstefnuskrá og í anda allra starfa Framsóknarflokksins.
Um leið má velferðarkerfið samt ekki vera þannig gert að það dragi mig til sín, með fátækragildrum tekjutenginga og jaðarskatta sem letja fólk til vinnu og sjálfsbjargar og endurhæfingar. Því miður eru enn mörg dæmi um það og fjöldi manns hefur misst sjálfsvirðinguna í fjötrum þessara aðstæðna og leiðst út í líf og athafnir sem engum er bjóðandi og verður það ávallt að vera forgangsmál að sporna gegn því. Ekki bara vegna einstaklinganna sjálfra og hamingju þeirra, heldur einnig aðstandenda og samfélagsins alls sem í stað þess að njóta framleiðslu þessara einstaklinga þarf að halda þeim uppi þar sem í augum þeirra borgar sig ekki að vinna, betra sé að vera á bótum og vinna jafnvel svart með.
Ástæður þessa eru þær að skattkerfið og tryggingakerfið eru illa samhæfð ásamt því að tryggingakerfið er afar tekjutengt.
Grundvöllur þessara umræðna er skilgreining á grunnframfærslu, sem ekki er enn samhæfð milli hinna ýmsu kerfa samfélagsins og er umræðan því oft um epli og appelsínur í belg og biðu. Er eðlilegt að einhverri stofnun ríkisins, Hagstofunni eða einhverri ámóta, verði falið að stýra þeirri vinnu að skilgreina framfærslugrunn sem allt samfélagið gæti miðað við. Var ályktun þess efnis samþykkt á síðasta flokksþingi og er nauðsynlegt að klára þá vinnu sem fyrst. Ljóst er að grunnframfærsla er afar mismunandi eftir aldri, fjölda barna á framfærslu eða meðlagsgreiðslur, heimilisaðstæður, búsetuaðstæður, námslánabyrði o.s.frv. og verður að taka tillit til þess.
Væri því mun eðlilegra að sameina þessi kerfi eins og kostur er í skattkerfinu og miða við að hver einstaklingur hafi sinn persónuafslátt, sem er reiknaður út frá grunnframfærslu hvers og eins, þar sem tekið væri tillit til þeirra þátta sem áður voru talin upp og fleiri. Einnig þyrfti að taka tillit til vinnufærni, þannig að fólk með skerta starfsorku fengi hærri persónuafslátt, enda örðugra um vik að afla sér tekna og í leiðinni heldur ekki algerlega sanngjarnt að fara fram á það að atvinnurekendur borgi þeim sama tímakaup og fólki með fulla starfsorku. Á þann hátt væri fyrirtækjum einnig umbunað fyrir að virkja áður óvirka einstaklinga.
Greiðsla þess reiknaða skatts sem yrði eftir þegar persónuafslátturinn væri dreginn frá má svo líta á sem tekjur fyrir ríkið um leið og hún væri mun virkara tekjujöfnunartæki, þar sem búið væri að taka tillit til hinna ýmsu einstaklingsbundnu aðstæðna.
Þeir aðilar sem svo geta ekki verið á vinnumarkaði yrðu samkvæmt þessu, því atvinnulausir og fengju bætur sem slíkir og hvatningu og þjálfurnarúrræði til jafns við aðra atvinnulausa og þeir sem geta bara verið í hlutastarfi fengju notið þess.
Í framhaldinu væri hægt að sameina Skattinn og Tryggingastofnun sem gæti einbeitt sér á samhæfðari hátt gegn misnotkun um leið og hagræðing við sameiningu stofnananna ásamt hagræði við það að með þessu væri velta innheimtustofnanna mun minni að maður tali ekki um hversu einfaldara væri að rata um frumskóg kerfisins.
Á þennan hátt eða einhvern svipaðan væri sem sagt hægt að ná betur markmiðum velferðarkerfisins, einfalda kerfið og gera það sanngjarnara og hagræða í stofnunum ríkisins.