Gestur Guðjónsson

23 september 2005

Batnandi mönnum...

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag mátti lesa frétt sem er líklegast skrifuð vegna þess að loksins hafa fréttamenn blaðsins náð að skilja kjarnann frá hisminu í bankasölumálinu svokallaða.

Í allt sumar hefur blaðið hamast á núverandi forsætisráðherra vegna tengsla hans við fyrirtæki sem áttu hlut í fyrirtækjum sem voru hluti af hópi fyrirtækja sem buðu hæsta verð í Búnaðarbankann, þar sem öllum aðilum á markaðinum, innlendum sem erlendum var boðið að taka þátt. Var þeim seldur hluturinn. Eðlilega. Mikið hefur verið látið með þessi eignatengsl, þrátt fyrir að enginn hafi getað bent á hvernig forsætisráðherra hefði hugsanlega getað beitt áhrifum sínum við val á þeim aðila sem gengið var til saminga við og þaðan af síður á það verð sem fyrirtækjahóparnir buðu.

Fyrirtækið var nefnilega selt hæstbjóðanda og fékkst hærra verð fyrir það en glöggir greinendur markaðarins bjuggust við á þeim tíma. Að fyrirtækið hafi síðan vaxið og dafnað er hlutur sem við óbreyttur almúginn getum ekki annað en glaðst yfir, enda hlýtur velsæld okkar meðal annars að vera afleiðing af rekstri öflugra fyrirtækja.

En það sem Fréttablaðið var að átta sig á, og lá reyndar fyrir alveg frá upphafi var að Landsbankinn var seldur lægstbjóðanda. Ekki nóg með að hann hafi verið seldur lægstbjóðanda, heldur var veittur 700 milljóna króna afsláttur af kaupverðinu eftir á! Auðvitað var það gegn ráðgjöf ráðgjafanna, minna væri það.

Engin getur eða hefur haldið því fram að kaupendur Landsbankans tengist á nokkurn hátt Framsóknarflokknum og ég held að það væri hverjum hollt að minnast þess hvaða stjórnmálaflokkur fór með formennsku í ráðherranefndinni og framkvæmdanefnd um einkavæðingu á þeim tíma sem þessi gjörningur fór fram. Það gerir Fréttablaðið vonandi í framhaldinu og þá er batnandi mönnum gott að lifa...

16 september 2005

Um læsi

Í vefriti Vinstriframboðsins- græns framboðs þann 12.9 sl gagnrýnir Grímur Atlason hugmyndir Ungra Framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi norður um að senda ungt ógæfufólk sem er háð fíkniefnum og leiðist út í glæpi í lokaða meðferðarvist í stað fangelsisvistar með “fullhörðnuðum” glæpamönnum.

Beitir hann einu elsta bragði í stjórnmálaklækjabókinni þegar hann hefur hlutina rangt eftir, snýr þeim á hvolf og dæmir svo rangfærslurnar sem ómögulegar, þegar hann segir:

“Á Íslandi hefur um árabil tíðkast að börn eru send í vímuefnameðferðir á staði þar sem fullorðnir fíklar eru einnig meðhöndlaðir. Rökin hafa verið þau að þannig megi fæla börnin frá áframhaldandi neyslu – hræðslan um að verða eins og Bóbó á Holtinu á sem sagt að forða þeim frá glötun. Hvaða rannsóknir liggja að baki þessari hugmyndafræði og eru einhverjar rannsóknir sem sýna hvernig þessum börnum vegnar sem send eru í slíkar meðferðir? Úti í heimi hafa verið gerðar rannsóknir þar sem niðurstöðurnar vara mjög við þeirri lensku að koma börnum fyrir í vímuefnameðferðum með fullorðnum einstaklingum”

Þetta er nákvæmlega það sem FUF RN er EKKI að leggja til og sá sem les þetta út úr ályktun stjórnar FUF RN eða ágætri grein eftir Marsibil J Sæmundsdóttur sem birtist á vefritunum http://www.suf.is/ og http://www.hriflan.is/ kemur upp um fordóma sína eða í besta falli torlæsi með því að lesa hlutina það vitlaust að eftir lesturinn skuli sá hinn sami telja sig knúinn að skrifa svargrein við því.

Það sem ungir framsóknarmenn í Reykjavík Norður leggja til við dómsmálaráðherra er að hann komi á þeim sérhæfðum úrræðum sem sem hæfa vanda þeirra einstaklinga sem um ræðir. Grímur hefur nefnilega rétt fyrir sér að það sé ekki endilega góð hugmynd að blanda saman gömlum hörðunuðum fíklum og ungum óhörðunðum fíklum, eins og það er ekki góð hugmynd að blanda þeim saman við fullharðnaða glæpamenn á Litla Hrauni.

Þessir ungu fíklar þurfa á úrræðum að halda sem hæfir vanda þeirra og þau úrræði eru enginn barnaleikur eða sumarleyfisvist sem einhver óskar sér, en þau eru þeim mun nauðsynlegri vegna æsku þeirra og þess vonandi langa lífs sem þeir eiga fyrir höndum og er algerlega óskiljanlegt að fólk sem telur sig vera félagslega sinnað skuli gagnrýna þessar tillögur og þá að minnsta kosti ekki leggja neitt nýtt til málanna.

Því miður kemur það úrræða- og tillöguleysi úr herbúðum VG ekki á óvart.

06 september 2005

Blessuð sértu sveitin mín

Á haustmánuðum, nánar tiltekið þann 8. október n.k. verða haldnar kosningar um sameiningu sveitarfélaga um land allt. Eru kosningarnar hluti af átaki sem félagsmálaráðherra hratt af stað í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga til að undirbúa flutning fleiri verkefna frá ríki til sveitarfélaga.

Efling sveitarstjórnarstigsins hefur verið á stefnuskrá Framsóknarflokksins um talsverðan tíma. Er markmið þess að flytja stærri hluti framkvæmdavaldsins nær íbúunum þannig að staðbundin stjórnsýsla, nærþjónusta og hagsmunagæsla svæðisins sé flutt nær íbúunum og möguleiki hvers einstaklings til að hafa áhrif á þessa þætti aukist.

Afar líklegt er að sameiningin verði felld í mörgum tilvikum, enda hafa íbúar í mörgum þessara sveitarfélaga áður fellt sameiningu við nágrannasveitarfélög sín og ólíklegt að þær ástæður sem búa að baki afstöðu þeirra séu breyttar. En hvað veldur?

Fyrst skal nefna tilfinningalegar ástæður. Það er eðlilegt að fólk vilji halda í þá félagslegu heild sem það hefur verið hluti af, oft alla ævi, gefið krafta sína og þegið aðstoð frá í gegnum súrt og sætt.

Það er hins vegar ekkert sem segir að íbúarnir þurfi að fórna því samfélagi sem það býr í, þótt stjórnsýslan sé sameinuð. Góðgerða, tómstunda- og íþróttafélög starfa áfram, kirkjusóknir eru óbreyttar og það skikkar engin neinn til að eiga samfélag við fleiri en viðkomandi óskar. Reynslan er víða sú að gömlu sveitarfélögin virka eins og hverfi í nýju sveitarfélagi og er verkefni sveitarstjórnanna að nýta þá möguleika sem í því felast fremur en að reyna að berja það niður.

Í öðru lagi eru einstaka sveitarfélög oft í þeirri aðstöðu að hafa gríðarmiklar tekjur af stórfyrirtækjum sem “fyrir tilviljun” lentu innan sveitarfélagsmarkanna. Geta slík sveitarfélög veitt íbúum sínum ofurþjónustu um leið og skattheimtu er stillt í hóf.

Er eðlilegt að þeir sem við slíkt búa vilji engu breyta, jafnvel þótt nágrannasveitarfélögin séu ekki síður að verða fyrir kostnaði og fórnum vegna þeirra. Verður að huga að því hvort og þá hvernig slíkum tekjum sé dreift. Besta dæmið um þetta eru virkjanir, en sveitarfélög sem eru svo heppin að hafa stöðvarhúsið innan sinna marka, fá fasteignagjöld greidd í sinn sjóð, meðan að önnur sveitarfélög, sem kannski hafa ekki síður lagt sinn skerf af náttúru og vatnsauðlindum til virkjunarinnar fá lítið sem ekki neitt í sínn hlut. Þetta er forgangsmál sem verður að leiðrétta.

Í þriðja lagi hafa með réttu komið fram þau rök gegn sameiningu að sveitarfélögin tapi á því fjárhagslega að verða stærri þá sértaklega vegna áhrifa jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Um leið og verið er að vinna að því að efla og styrkja sveitarfélögin með stækkun, er sem sagt rekið batterý sem vinnur í þveröfuga átt, þar sem minni sveitarfélögin eru styrkt umfram hin stærri. Er ljóst að þessu verður að breyta er líklegast besta lausnin að leggja niður jöfnunarsjóð sveitarfélaga í áföngum.

Í fjórða lagi hefur það verið nefnt að sveitarfélögin vilji ekki fleiri verkefni vegna þess að fjármagn komi ekki með þeim verkefnum. Afar erfitt er að flytja fleiri verkefni til sveitarfélaganna áður en þau eru orðin nægjanlega öflug til að geta tekið við þeim, bæði sem faglegar stjórnsýslueiningar og ekki síður fjárhagslega.

Er þetta líklegast mesta sjálfheldan sem málið er í, því á meðan ekki er vitað fyrir víst vegna hvaða verkefna er verið að sameina, sjá íbúarnir lítinn tilgang í að sameinast, en meðan sveitarfélögin eru ekki nógu öflug er ekki hægt að ákveða hvaða verkefni er hægt að treysta þeim fyrir.

Það má alveg ljóst vera að ekki verður búið við ástandið eins og það er í dag. Sveitarfélögin eru of misstór til að þau geti tekið á sig sömu verkefni og því verður að breyta. Besta leiðin væri í rauninni að leggja sveitarfélögin niður og endurvekja gömlu sýslurnar, eins og sameiningarnefndin virðist leggja til í mörgun tilfellum og ef það gengur ekki með kosningum, er það skylda löggjafans gagnvart þeim mikla meirihluta íbúa þessa lands sem verður af þeim framförum sem flutningur verkefna til sveitarstjórnarstigsins myndi hafa í för með sér, með því að þvinga fram sameiningu þar sem íbúarnir eru blindaðir af eigin sérhagsmunum. Líklegast er bein lagasetning eina lausnin, hversu hávær mótmæli sem þau kunna að hafa í för með sér. Heildin hlýtur að verða að fá forgang umfram sérhagsmunina.

Þannig er lýðræðið og alþingismenn, sama í hvaða flokki sem þeir eru verða að axla þá ábyrgð.