Í vefriti Vinstriframboðsins- græns framboðs þann 12.9 sl gagnrýnir Grímur Atlason hugmyndir Ungra Framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi norður um að senda ungt ógæfufólk sem er háð fíkniefnum og leiðist út í glæpi í lokaða meðferðarvist í stað fangelsisvistar með “fullhörðnuðum” glæpamönnum.
Beitir hann einu elsta bragði í stjórnmálaklækjabókinni þegar hann hefur hlutina rangt eftir, snýr þeim á hvolf og dæmir svo rangfærslurnar sem ómögulegar, þegar hann segir:
“Á Íslandi hefur um árabil tíðkast að börn eru send í vímuefnameðferðir á staði þar sem fullorðnir fíklar eru einnig meðhöndlaðir. Rökin hafa verið þau að þannig megi fæla börnin frá áframhaldandi neyslu – hræðslan um að verða eins og Bóbó á Holtinu á sem sagt að forða þeim frá glötun. Hvaða rannsóknir liggja að baki þessari hugmyndafræði og eru einhverjar rannsóknir sem sýna hvernig þessum börnum vegnar sem send eru í slíkar meðferðir? Úti í heimi hafa verið gerðar rannsóknir þar sem niðurstöðurnar vara mjög við þeirri lensku að koma börnum fyrir í vímuefnameðferðum með fullorðnum einstaklingum”
Þetta er nákvæmlega það sem FUF RN er EKKI að leggja til og sá sem les þetta út úr ályktun stjórnar FUF RN eða ágætri grein eftir Marsibil J Sæmundsdóttur sem birtist á vefritunum http://www.suf.is/ og http://www.hriflan.is/ kemur upp um fordóma sína eða í besta falli torlæsi með því að lesa hlutina það vitlaust að eftir lesturinn skuli sá hinn sami telja sig knúinn að skrifa svargrein við því.
Það sem ungir framsóknarmenn í Reykjavík Norður leggja til við dómsmálaráðherra er að hann komi á þeim sérhæfðum úrræðum sem sem hæfa vanda þeirra einstaklinga sem um ræðir. Grímur hefur nefnilega rétt fyrir sér að það sé ekki endilega góð hugmynd að blanda saman gömlum hörðunuðum fíklum og ungum óhörðunðum fíklum, eins og það er ekki góð hugmynd að blanda þeim saman við fullharðnaða glæpamenn á Litla Hrauni.
Þessir ungu fíklar þurfa á úrræðum að halda sem hæfir vanda þeirra og þau úrræði eru enginn barnaleikur eða sumarleyfisvist sem einhver óskar sér, en þau eru þeim mun nauðsynlegri vegna æsku þeirra og þess vonandi langa lífs sem þeir eiga fyrir höndum og er algerlega óskiljanlegt að fólk sem telur sig vera félagslega sinnað skuli gagnrýna þessar tillögur og þá að minnsta kosti ekki leggja neitt nýtt til málanna.
Því miður kemur það úrræða- og tillöguleysi úr herbúðum VG ekki á óvart.