Á forsíðu Fréttablaðsins í dag mátti lesa frétt sem er líklegast skrifuð vegna þess að loksins hafa fréttamenn blaðsins náð að skilja kjarnann frá hisminu í bankasölumálinu svokallaða.
Í allt sumar hefur blaðið hamast á núverandi forsætisráðherra vegna tengsla hans við fyrirtæki sem áttu hlut í fyrirtækjum sem voru hluti af hópi fyrirtækja sem buðu hæsta verð í Búnaðarbankann, þar sem öllum aðilum á markaðinum, innlendum sem erlendum var boðið að taka þátt. Var þeim seldur hluturinn. Eðlilega. Mikið hefur verið látið með þessi eignatengsl, þrátt fyrir að enginn hafi getað bent á hvernig forsætisráðherra hefði hugsanlega getað beitt áhrifum sínum við val á þeim aðila sem gengið var til saminga við og þaðan af síður á það verð sem fyrirtækjahóparnir buðu.
Fyrirtækið var nefnilega selt hæstbjóðanda og fékkst hærra verð fyrir það en glöggir greinendur markaðarins bjuggust við á þeim tíma. Að fyrirtækið hafi síðan vaxið og dafnað er hlutur sem við óbreyttur almúginn getum ekki annað en glaðst yfir, enda hlýtur velsæld okkar meðal annars að vera afleiðing af rekstri öflugra fyrirtækja.
En það sem Fréttablaðið var að átta sig á, og lá reyndar fyrir alveg frá upphafi var að Landsbankinn var seldur lægstbjóðanda. Ekki nóg með að hann hafi verið seldur lægstbjóðanda, heldur var veittur 700 milljóna króna afsláttur af kaupverðinu eftir á! Auðvitað var það gegn ráðgjöf ráðgjafanna, minna væri það.
Engin getur eða hefur haldið því fram að kaupendur Landsbankans tengist á nokkurn hátt Framsóknarflokknum og ég held að það væri hverjum hollt að minnast þess hvaða stjórnmálaflokkur fór með formennsku í ráðherranefndinni og framkvæmdanefnd um einkavæðingu á þeim tíma sem þessi gjörningur fór fram. Það gerir Fréttablaðið vonandi í framhaldinu og þá er batnandi mönnum gott að lifa...