Gestur Guðjónsson

18 desember 2006

Ísafold

Las grein í nýja tímaritinu Ísafold um daginn. Greinin var auglýst þannig að maður átti von á að þar væri hulunni svipt af illri meðferð á þeim sem þar búa.

Við lestur greinarinnar skein bersýnilega í gegn að starfsfólk Grundar gerir sitt besta til að láta fólki líða vel, en það er greinilegt að þessi "rannsóknarblaðamaður" hefur ekkert í þetta starf að gera, opinberar þvílíka fordóma og vanþekkingu að maður sárvorkennir henni. Lýsir því að mæta til vinnunnar á réttum tíma sem voðalegum píningum og það að þurfa að standa á eigin fótum í vinnunni sem algeru ábyrgðarleysi. Auðvitað þarf að þrífa fólk og ég veit ekki hvernig er hægt að gera það öðruvísi en að snerta það. Ég skil satt best að segja ekkert í Ísafold að vera að birta þetta og þaðan af síður að leyfa blaðamanninum að setja þetta fram í því ljósi, því það er greinilegt að þessi grein er skrifuð með það eitt að markmiði að sverta starfsemina.

Auglýsingarnar á greininni einar hafa sært og skaðað og vonandi ná forráðamenn Grundar fram rétti sínum gagnvart þessari skemmdarverkarstarfsemi.

15 desember 2006

Umferðin

Það eru skrítin viðbrögðin við þessum óhugnalegu fréttum af mannslátum í umferðinni.

Menn ræða um vegi og aftur vegi, en það virðist lítill áhugi vera á orsökum slysanna. Orsakirnar eru einfaldar. Menn eru ekki að haga akstri eftir aðstæðum.

Þrátt fyrir að vera þessarar skoðunar, tel ég mun réttara að gera 2+1 veg austur fyrir fjall. Breiðari en þennan sem settur var í Svínahraunið, en það væri framkvæmd sem væri hægt að klára á næsta kjörtímabili. Öryggisaukningin milli 2+1 og 2+2 réttlætir ekki þann kostnaðarauka sem af því hlýst að fara í 2+2. Ef menn ætluðu að fara í 2+2 veg, væri eingöngu í tengslum við þá sjálfsögðu framkvæmd að klára veginn yfir Sprengisand, sem er jú þegar malbikaður að Þórisvatni, niður í Bárðardal sem er auðvelt vegstæði, gegnum Vaðlaheiði og til Akureyrar og Húsavíkur annars vegar, en yfir Ódáðahraun til Kárahnjúka og eftir þeim vegi sem þegar er til þaðan á Egilsstaði hins vegar.

Samfélagið gæti á móti sparað sér breikkun vegarins um Vesturland og byggingarland höfuðborgarsvæðisins ykist sem nemur Árnessýslu og vegtengingar NA lands við SV hornið yrðu ásættanlegar.

14 desember 2006

Er réttur barnanna ekki meiri en foreldranna?

Í Hollandi hefur afar áhugavert og hugsanavekjandi mál komið upp.

Ung telpa fannst myrt í bíl móður sinnar. Dánarorsök, hlutur sem hafði verið troðið ofan í háls hennar. Móðirin hefur játað verknaðinn.

Eins og þetta sé ekki nógu sorglegt, en við rannsókn málsins kemur í ljós að hún hefur orðið fyrir miklu líkamlegu ofbeldi um langan tíma, m.a. hefur hún verið handleggsbrotin og ekki fengið að fara til læknis.

Barnarverndaryfirvöld hafa haft móðurina undir eftirliti í mörg ár, en ekki séð ástæðu til að fjarlægja barnið, með vísun í rétt barnsins til að umgangast foreldra sína. Þetta viðhorf er því miður allt of sterkt almennt í barnaverndarmálum, að réttur foreldranna til að umgangast börnin sín virðist vera mikið mun sterkari en réttur barnanna til eðlilegs lífs, þótt fjarri foreldrum væri og því fór sem fór fyrir þessari vesalings stúlku

En það sem er áhugavert við þetta mál er það að nú hefur öll barnaverndarnefndin sem um þetta mál fjallaði verið ákærð fyrir manndráp að gáleysi. Telur ákæruvaldið að með því að ákveða að fjarlægja ekki barnið, þrátt fyrir allar þær viðvörunarbjöllur sem hringt höfðu um langan tíma, hafi nefndin sýnt stórkostlega vanrækslu í starfi og beri því að draga til ábyrgðar.