Gestur Guðjónsson

12 júlí 2006

Með sínum augum sér hver hlutina

Á heimasíðu sinni, www.kristinn.is, skrifar Kristinn H Gunnarsson um stefnubreytingu Framsóknarflokksins í umhverfismálum. Margt er gott í grein hans, en eftirfarandi klausa stingur mig, sem hafandi verið meðal hópsstjóra í umhverfis- og skipulagsmálum á síðasta flokksþingi:

Á síðasta flokksþingi, sem haldið var í febrúar 2005, flutti ég ásamt Steingrími Hermannssyni tillögu um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og að hætt yrði við öll áform um virkjanir á því svæði. Þessi tillöguflutningur var í eðlilegu samræmi við fyrri áherslur flokksins, en nýmæli hvað Þjórsárver varðar og gegn ríkjandi stefnu ríkisstjórnarinnar. Tillagan var ekki samþykkt þá heldur vísað til nefndar.

Kristinn virðist, viljandi eða óviljandi, vera ókunnugt um hvernig málefnastarf flokksins fer fram. Í aðdraganda flokksþinga eru stofnaðir málefnahópar sem öllum flokksmönnum er gefinn kostur á að skrá sig í, sem koma með tillögur til flokksþings. Kristinn tók ekki þátt í því starfi hvað umhverfismálin varðar, þótt hann hefði kost á því. Þær tillögur eru svo ræddar áfram í nefndum þingsins, sem allir þingfulltrúar hafa möguleika á að vera með í. Í nefndunum eru tillögurnar yfirfarnar á ný og reynt að setja niður allan ágreining áður en þær eru bornar undir allt flokksþingið.

Tillaga Kristins og Steingríms fékk eðlilega meðferð, fór í nefndina og var rædd á fundi hennar þar sem hann mætti ásamt fleirum, um 100 manns og átti sér stað afar góð og upplýsandi umræða sem var öllum til sóma. En þegar taka átti afstöðu í nefndinni morguninn eftir lét Kristinn ekki sjá sig til að fylgja málinu eftir og þegar heildartillagan úr nefndinni var afgreidd á þinginu, kom Kristinn heldur ekki fram til að fylgja sinni tillögu eftir, þannig að hún kom aldrei til afgreiðslu, þótt öll tök hefðu verið á því að fá fram vilja þingsins. Það hefði hann getað gert einn síns liðs.

Ég var tilbúinn með tillögu sem ég tel að hafi getað sætt sjónarmiðin, en þar sem engin var til að fylgja tillögu Kristins og Steingríms eftir á fundinum, gat ég sem fundarstjóri ekki lagt hana fram, enda ekki um ágreining að ræða meðal þeirra sem mættu, þótt ég hefði fegin viljað.

Vill að þessu sé til haga haldið og rétt sé farið með.

10 júlí 2006

Vill stjórnarandstaðan atvinnuleysi?

Viðbrögð stjórnarandstöðunnar við aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að slá á þenslu eru afar undarleg.
Stjórnarandstaðan gagnrýnir þær aðgerðir sem farið er í, en um leið eru þær ekki nægjanlega miklar og koma of seint.

Meira en þrír fjórðu útgjalda ríkisns eru laun og stór hluti þess niðurskurðar sem um ræðir hjá ríkinu í þessum aðgerðum er seinkun á fjárfestingum sem fara að hluta til í erlendan kostnað.

Þannig að ef ríkisstjórnin er ekki að gera rétt með því að fresta framkvæmdum, væri eina ráð hennar að draga úr launakostnaði. Það getur bara haft tvennt í för með sér, lækkun á launatöxtum eða uppsagnir á starfsfólki.

Þannig að það sem stjórnarandstaðan er í raun að leggja til með gagnrýni sinni, meðan hún kemur ekki með neinar aðrar raunhæfar tillögur, er að segja upp starfsfólki og koma á atvinnuleysi.Það væri björgulegt, eða hitt þó heldur.