Gestur Guðjónsson

16 ágúst 2005

Nýtt landslag í Reykjavík

Með samþykkt Vinstrihreyfingarinnar-Græns framboðs um að ætla ekki að taka þátt í samstarfinu um R-lista í aðdraganda næstu borgarstjórnarkosninga er komin upp ný staða í borgarmálunum. VG hefur með þessari ákvörðun bundið enda á afar merkilegt samstarf félagshyggjuaflanna og er ótrúlegt að það skuli vera sá flokkur sem lengst er til vinstri sem skuli sprengja samstarfið.

R-listinn hefur í sinni valdatíð komið mörgum góðum málum til leiðar og er í mínum huga kýrskýrt að ýmsum málum væri mun ver fyrir komið ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið við völd þennan tíma. Það hefur verið á kostnað sýnileika þeirra aðila sem að honum standa og á tíminn eftir að leiða í ljós hvort sú fórn var þess virði.

Eins og íhaldið hefur látið væri Reykjavík ekki með veitustofnanirnar sameinaða undir einum hatti Orkuveitunnar, með framsýna stefnu sem hefur skilað góðum árangri undir stjórn R-listans með Alfreð Þorsteinsson í broddi fylkingar. Eins er alveg ljóst að þjónusta við barnafólk væri ekki jafn góð og raun ber vitni, en nú eiga börn borgarinnar kost á dagvistun eins og best gerist á landinu og leyfi ég mér að fullyrða að sú þjónusta er á heimsmælikvarða. Í tíð Sigrúnar Magnúsdóttur sem forystumanni í skólamálum var grettistaki lyft í skólamálum og svo mætti lengi telja.

Það er hverjum manni hollt að hugsa þá hugsun til enda hvernig íhaldið hefði haldið á þessum málum. Önnur hver nýbygging væri í eigu einhvers gæðingsins sem leigði hann svo til borgarinnar á “góðum” kjörum og reksturinn líklegast keyptur af hinum og þessum, sem ættu það sammerkt að vera bláir í gegn. Kannski væri útsvarið eitthvað lægra, en þjónustugjöld myndu koma í staðin og meira til, því öll þjónusta kostar og einhver þarf að borga.

En mestu tíðindin við þessa ákvörðun VG, sem reyndar hefur legið í loftinu í nokkurn tíma, er sú að flokkurinn er að opinbera sig sem nánast óhæfan í samstarfi við aðra flokka og greinilegt að hann, vel hvattur af formanni flokksins, ætlar að marka sér stefnu sem einangraður einstrengingslegur öfgastefnuflokkur á vinstri væng stjórnmálanna. Það er miður, því heiðarleg vinstri rödd er nauðsynleg í allri pólitík. Óljóst er hvort Samfylkingin á þeirri leið að gegna því hlutverki, frekar en öðru, enda virðist Samfylkingin ekki ná að lenda nokkurri stefnumörkun eins og síðasti landsfundur bar vitni um.

Þau öfl í VG sem hafa hvatt til þessarar ákvörðunar og hafa greinilega náð afgerandi meirihluta, hafa nítt fulltrúa sína fyrir þær málamiðlanir sem þeir hafa gert og skammað þá fyrir að víkja frá hinni “hreinu og ómenguðu” stefnu sem VG stendur fyrir. Ef ekki má gera neinar málamiðlanir er óhugsandi að nokkur ábyrgt stjórnmálaafl geti farið í samstarf við VG, eins og stefna þeirra er í mörgum málum. Er eina leið VG til áhrifa því að ná hreinum meirihluta einir og sér eða að gera byltingu.

Það fólk sem vill hafa áhrif á samfélagið með félagslegum áherslum er því að spilla kröftum sínum með því að ganga til liðs við VG eða að styðja flokkinn á kjördag. Framsóknarflokkurinn er eðlilegur valkostur fyrir þetta fólk, enda hefur hann sýnt í gegnum áratugina að hann er öflugur málsvari félagslegra gilda, með skýra stefnu sem hann kemur í framkvæmd með skynsamlegum málamiðlunum.

02 ágúst 2005

Frúin í Hamborg

Þegar sala Símans hefur borið á góma undanfarin misseri, hefur ávallt fylgt í kjölfarið óskalisti með þeim verkefnum sem söluandvirðið eigi að fara í.

Eru það verkefni sem flest öll hafa það sammerkt að þau hafa ekki fengist í gegn við hefðbunda fjármunaráðstöfun Alþingis við fjárlagagerð. Það eru sem sagt verkefni sem hafa ekki komist það ofarlega í forgangsröðun Alþingis að talið hafi verið rétt að veita til þeirra af takmörkuðum fjármunum ríkissjóðs. Hefur Alþingi þannig talið rétt að veita þeim til annarra verkefna, sem oftast eru líka vel skilgreind eftir stefnumörkun hinna ýmsu framkvæmdaáætlana ríkisins eða til velferðarmála.

Í kjölfar fyrstu einkavæðingarinnar sem staðið er að undir forystu Framsóknarflokksins reynir því verulega á beinastyrk þeirra sem með þessa fjármuni fara þessa dagana þegar 66,7 milljarðar koma “allt í einu” í ríkissjóð og freistandi að fara í gæluverkefni sem líkleg eru til vinsælda um stundarsakir.

En það væri hvorutveggja óskynsamlegt í ljósi þess þensluástands sem er hér á landi og verður að öllum líkindum áfram að fara í miklar framkvæmdir í hasti eða að skapa væntingar til þeirra en það er ekki síður afar varhugavert að ganga á svig við það ákvarðanatökuferli sem í gildi er við skiptingu fjármuna ríkisins.

Það ferli hefur það að markmiði að taka ákvarðanir byggðar á traustum undirbúningi, vel skilgreindum markmiðum ásamt því að samræmis sé gætt við úthlutun fjármuna milli málaflokka.

Að fara að leika Frúna í Hamborg núna í tengslum við sölu Símans er því afar óskynsamlegt og er eina skynsamlega ráðstöfun þessara fjármuna að láta þá ganga óskipta til niðurgreiðslu erlendra skulda. Með því lækka vaxtagjöld ríkisins, þensla á peningamarkaði minnkar og vegna minnkandi skulda ríkisins batna lánakjör þess í samræmi við það. Síðast en ekki síst gefa lækkuð vaxtagjöld fjárveitingavaldinu aukið svigrúm til góðra verka.

Ef ákveðið verður í framtíðinni að fara í framkvæmdir sem ekki rúmast innan hefðbundins tekjuramma ríkisins, eins og t.d. bygging hátæknisjúkrahúss sem Jón Kristjánsson Heilbrigðisráðherra er þegar farinn að undirbúa af stakri yfirvegun, er ríkinu í lófa lagið að taka lán að nýju fyrir þeim framkvæmdum.