Þegar sala Símans hefur borið á góma undanfarin misseri, hefur ávallt fylgt í kjölfarið óskalisti með þeim verkefnum sem söluandvirðið eigi að fara í.
Eru það verkefni sem flest öll hafa það sammerkt að þau hafa ekki fengist í gegn við hefðbunda fjármunaráðstöfun Alþingis við fjárlagagerð. Það eru sem sagt verkefni sem hafa ekki komist það ofarlega í forgangsröðun Alþingis að talið hafi verið rétt að veita til þeirra af takmörkuðum fjármunum ríkissjóðs. Hefur Alþingi þannig talið rétt að veita þeim til annarra verkefna, sem oftast eru líka vel skilgreind eftir stefnumörkun hinna ýmsu framkvæmdaáætlana ríkisins eða til velferðarmála.
Í kjölfar fyrstu einkavæðingarinnar sem staðið er að undir forystu Framsóknarflokksins reynir því verulega á beinastyrk þeirra sem með þessa fjármuni fara þessa dagana þegar 66,7 milljarðar koma “allt í einu” í ríkissjóð og freistandi að fara í gæluverkefni sem líkleg eru til vinsælda um stundarsakir.
En það væri hvorutveggja óskynsamlegt í ljósi þess þensluástands sem er hér á landi og verður að öllum líkindum áfram að fara í miklar framkvæmdir í hasti eða að skapa væntingar til þeirra en það er ekki síður afar varhugavert að ganga á svig við það ákvarðanatökuferli sem í gildi er við skiptingu fjármuna ríkisins.
Það ferli hefur það að markmiði að taka ákvarðanir byggðar á traustum undirbúningi, vel skilgreindum markmiðum ásamt því að samræmis sé gætt við úthlutun fjármuna milli málaflokka.
Að fara að leika Frúna í Hamborg núna í tengslum við sölu Símans er því afar óskynsamlegt og er eina skynsamlega ráðstöfun þessara fjármuna að láta þá ganga óskipta til niðurgreiðslu erlendra skulda. Með því lækka vaxtagjöld ríkisins, þensla á peningamarkaði minnkar og vegna minnkandi skulda ríkisins batna lánakjör þess í samræmi við það. Síðast en ekki síst gefa lækkuð vaxtagjöld fjárveitingavaldinu aukið svigrúm til góðra verka.
Ef ákveðið verður í framtíðinni að fara í framkvæmdir sem ekki rúmast innan hefðbundins tekjuramma ríkisins, eins og t.d. bygging hátæknisjúkrahúss sem Jón Kristjánsson Heilbrigðisráðherra er þegar farinn að undirbúa af stakri yfirvegun, er ríkinu í lófa lagið að taka lán að nýju fyrir þeim framkvæmdum.