Gestur Guðjónsson

14 janúar 2005

Eitt kjördæmi?

Í tengslum við umræðu um stjórnarskrána undanfarin ár hefur kjördæmaskipanin og vægi atkvæða mikið verið til umræðu. Síðasta breyting á stjórnarskránni fól í sér uppstokkun kjördæma og lögfestingu á hámarksmisvægi atkvæða sem í leiðinni var stórminnkað. Það kerfi sem nú er við lýði hefur vissulega marga ókosti, en það hafa öll kosningakerfi, hvaða nafni sem þau nefnast og verður stöðugt að meta þá á móti kostunum.

Í núverandi kerfi er kosið milli framboðslista í 6 kjördæmum, þar sem þingmenn sækja atkvæði til síns kjördæmis og eru því að margra mati siðferðilega skuldbundnir því kjördæmi. Ekki ætla ég að nefna nein dæmi, en þessi skyldurækni hefur kostað þjóðarbúið stórkostlegar upphæðir í formi þjóhagslega fáránlegra ákvarðana þegar þessir þingmenn hafa komist í áhrifastöður og goldið sínu kjördæmi greiðann og verið þannig þingmenn síns kjördæmis en ekki landsins alls. Eðlilega hafa þessar ákvarðanir verið hlutfallslega flestar þar sem atkvæði bakvið hvern þingmann eru fæst. Kjósendur hafa samt sem áður ekki haft raunverulega neitt með það að segja hvaða einstaklingar á framboðslistanum “njóti” atkvæðis síns, því útstrikanir þurfa að vera afar umfangsmiklar til að hafa áhrif, sem hefur ekki gerst hingað til.

Með því að gera landið að einu kjördæmi með það að markmiði að útrýma misvægi atkvæða og draga úr heimahéraðspoti og ætla að halda áfram með listakosningar er hætt við að allt annað og ekki síður varhugavert pot taki við af því kjördæmapoti sem þó hefur minnkað mikið í tíð núverandi ríkisstjórnar. En það er innanflokkspot og aukið foringjaræði, því kjósendur hefðu enn minna að segja um hvaða einstaklingar veljast á þing. Þannig má segja að stærsti hluti alþingismanna væri í raun án persónulegs umboðs frá kjósendum. Nákvæmni skoðanakannana gerir það að verkum að kjósendur vita með nokkurri vissu milli hvaða frambjóðanda á listum flokkanna slagurinn stendur og eru því oft á tíðum að velja á milli persónanna sem eru í baráttusætunum eða þá þann flokk sem viðkomandi hugnast. Á þann hátt á kjósandinn í rauninni enga möguleika á að hafna frambjóðenda á þeim lista sem honum hugnast sem hefði einhvernvegin komið sér til dæmis í 3. sæti einhvers fjórflokkanna og má því segja að það séu bara síðustu og kannski næstsíðustu þingmennirnir á listanum sem hefðu persónulegt umboð kjósenda. Þetta á þegar við í einhverjum mæli í núverandi kerfi, en með því að skipta Reykjavíkurkjördæmi upp í tvennt var reynt að stemma stigu við þessu eins og kostur var.

Er því ljóst að til þess að bæta lýðræðið verulega frá núverandi kerfi með því að gera landið að einu kjördæmi verður að taka upp óhlutbundnar kosningar. Hægt er að hugsa sér tvær leiðir. Aðra þar sem kjósendur merkja við allt að 63 frambjóðendur innan sama framboðslistans sem fá þá allir eitt atkvæði og færi þá prófkjör í rauninni fram um leið og listinn væri kosinn. Hin leiðin, sem væri enn lýðræðislegri, væri að gefa kjósendum kost á að merkja við allt að 63 frambjóðendur á kjörseðlinum öllum, óháð listum. Frambjóðendum væri áfram skipað á lista og varamenn yrðu sóttir á lista viðkomandi eftir atkvæðafjölda og til einföldunar væri einnig hægt að bjóða upp á að krossa við heilan lista sem væri þá atkvæði á 63 efstu menn á listanum miðað við óbreyttan þingmannafjölda, en Alþingismenn yrðu þeir sem flest atkvæði hlytu og hefðu því persónulega óskorað og óvéfengjanlegt umboð kjósenda.

Þetta kerfi er ekki fullkomið frekar en hin og hætt er við að margir þeirra sem í dag mæla fyrir einu kjördæmi færu ekki of vel út úr slíkum kosningum. Líklega myndi vinsældapólitík aukast, en á móti eru líkur á að persóna, hugsjónir og sannfæring manna fengi meira vægi, innanflokkspot og erjur minnka verulega, enda tiltölulega auðvelt að komast á 126 manna framboðslista miðað við að þurfa að berjast um efstu sæti framboðslistanna í dag og síðast en ekki síst nánast að útrýma skipulögðu sérhagsmunapoti héraðanna, sem allt í allt myndi færa stjórnmálin nær grunnhugsun lýðræðisins og gera Alþingismenn raunverulega fulltrúa kjósenda sinna.

06 janúar 2005

Einkum, ao: sér í lagi, aðallega, fyrst og fremst

Mikið getur maður vorkennt félagsmönnum Samfylkingarinnar að hafa valið sér forystumenn sem ekki geta lesið einföldustu bréf án þess að misskilja þau. Í skipunarbréfi stjórnarskrárnefndar sem sent var þeim aðilum sem stjórnmálaflokkarnir tilnefndu í stjórnarskrárnefnd forsætisráðherra segir: "Endurskoðunin verði einkum bundin I., II. og V. kafla stjórnarskrárinnar og þau ákvæði í öðrum köflum hennar sem sérstaklega tengjast ákvæðum þessara kafla..." Forystumenn Samfylkingarinnar virðast ekki geta skilið orðið "einkum" og ákveða því að sleppa því orði þegar þeir vitna í skipunarbréfið og fara svo á flug þaðan í frá og upp í hæstu hæðir til þess að því að virðist að skapa óskiljanlegan ágreining við upphaf þessa mikilvægasta máls stjórnmála seinni tíma. Þeir sem fengið hafa þá lestrarkennslu, sem almennt tíðkast, geta ekki lesið þetta öðruvísi en svo að nefndinni sé fullheimilt að fara í alla kaflanna, en þó eigi að fara sérstaklega í I., II. og V. kafla, enda hafa þeir ekki verið endurskoðaðir nýlega á sama hátt og aðrir kaflar stjórnarskrárinnar.
En hvað skyldu nú þessir kaflar fjalla um, þeir sem einkum á að skoða og svo hinir?
Fyrsti kafli og annar kafli fjalla um handhafa ríkisvaldsins og aðkomu Alþingis og forseta að löggjafarvaldi og framkvæmdavaldi. Forsetaembættið og aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Þessir kaflar hafa aldrei verið teknir til endurskoðunar. Um þau atriði sem þar er fjallað um urðu harðar deilur í sumar. Þeir þarfnast endurskoðunar, til þess að skýra ákvæði þeirra þannig að sams konar deilur komi ekki upp í framtíðinni. Til dæmis með því að setja almenn ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur.
Þriðji kaflinn fjallar um kjördæmaskipan. Endurskoðun hennar er nýlega lokið. Fyrst var kosið til alþingis samkvæmt nýrri kjördæmaskipan vorið 2003. Þessi kafli er semsagt nýendurskoðaður.
Fjórði kaflinn fjallar um samkomudaga Alþingis, kjörgengi þingmanna, og fleira sem lýtur að Alþingi. Eru það heit deilumál, Össur? Er rétt að tefja lengi við þetta? Fjórði kaflinn var endurskoðaður 1991. Það er hægt að skoða þetta aftur, ef þú vilt. Orðið einkum er atviksorð og merkir, samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs: sér í lagi, aðallega, fyrst og fremst. Við vitum að þú ert ekki doktor í íslensku, Össur, en hvar lærðirðu eiginlega að lesa?
Fimmti kaflinn fjallar um dómendur og dómsvaldið. Skipan dómara við Hæstarétt hefur verið eitt heitasta deiluefnið í pólitík hélendis undanfarin misseri. Er ekki rétt að kíkja yfir þessar reglur, Össur? Þær hafa ekki komið til endurskoðunar fram að þessu.
Sjötti kaflinn fjallar um þjóðkirkjuna. Telurðu að það sé sátt í þjóðfélaginu um aðskilnað ríkis og kirkju þessa dagana, Össur? Mun umfjöllun um það leiða til vandaðrar niðurstöðu um þjóðaratkvæðagreiðslur, skipan dómenda í hæstarétti, þrígreiningu ríkisvaldsins og önnur þau mál talin eru til grundvallarmála af þeim sem kynnt hafa sér málið? Ertu kannski ekki með á nótunum í stjórnarskrármálunum, Össur? Eða ert það kannski þú og enginn annar sem er að efna til deilna um þetta mál og tefla því í tvísýnu? Viltu ekki fá niðurstöðu í stjórnarskrármálin? Hentar það ekki? Á það betur við þig að framleiða óánægju en stuðla að niðurstöðu? Sjöundi kaflinn er mannréttindakaflinn, hann var endurskoðaður 1995 og þá færður til þess horfs sem er í Mannréttindasáttmála Evrópu? Býður þú betur en Mannréttindasáttmáli Evrópu, Össur? Fleiri eru kaflarnir ekki. Áhugasamir geta lesið stjórnarskrána með því að smella hér. Þeir sem vilja lesa um hvernig staðið er að afgreiðslu tillagna til breytinga á stjórnarskrá geta smellt hér. Loks má vekja athygli á því að Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, sem á sæti í sérfræðinganefndinni sem endurskoðar stjórnarskrána, sagði í fréttum í gær að það væri eðlilegt vinnulag að beina sjónum fyrst og fremst að I., II. og V. kafla enda væru ákvæði þeirra úrelt en aðrir helstu kaflar hefðu áður verið endurskoðaðir.
GG/PG