Gestur Guðjónsson

14 janúar 2005

Eitt kjördæmi?

Í tengslum við umræðu um stjórnarskrána undanfarin ár hefur kjördæmaskipanin og vægi atkvæða mikið verið til umræðu. Síðasta breyting á stjórnarskránni fól í sér uppstokkun kjördæma og lögfestingu á hámarksmisvægi atkvæða sem í leiðinni var stórminnkað. Það kerfi sem nú er við lýði hefur vissulega marga ókosti, en það hafa öll kosningakerfi, hvaða nafni sem þau nefnast og verður stöðugt að meta þá á móti kostunum.

Í núverandi kerfi er kosið milli framboðslista í 6 kjördæmum, þar sem þingmenn sækja atkvæði til síns kjördæmis og eru því að margra mati siðferðilega skuldbundnir því kjördæmi. Ekki ætla ég að nefna nein dæmi, en þessi skyldurækni hefur kostað þjóðarbúið stórkostlegar upphæðir í formi þjóhagslega fáránlegra ákvarðana þegar þessir þingmenn hafa komist í áhrifastöður og goldið sínu kjördæmi greiðann og verið þannig þingmenn síns kjördæmis en ekki landsins alls. Eðlilega hafa þessar ákvarðanir verið hlutfallslega flestar þar sem atkvæði bakvið hvern þingmann eru fæst. Kjósendur hafa samt sem áður ekki haft raunverulega neitt með það að segja hvaða einstaklingar á framboðslistanum “njóti” atkvæðis síns, því útstrikanir þurfa að vera afar umfangsmiklar til að hafa áhrif, sem hefur ekki gerst hingað til.

Með því að gera landið að einu kjördæmi með það að markmiði að útrýma misvægi atkvæða og draga úr heimahéraðspoti og ætla að halda áfram með listakosningar er hætt við að allt annað og ekki síður varhugavert pot taki við af því kjördæmapoti sem þó hefur minnkað mikið í tíð núverandi ríkisstjórnar. En það er innanflokkspot og aukið foringjaræði, því kjósendur hefðu enn minna að segja um hvaða einstaklingar veljast á þing. Þannig má segja að stærsti hluti alþingismanna væri í raun án persónulegs umboðs frá kjósendum. Nákvæmni skoðanakannana gerir það að verkum að kjósendur vita með nokkurri vissu milli hvaða frambjóðanda á listum flokkanna slagurinn stendur og eru því oft á tíðum að velja á milli persónanna sem eru í baráttusætunum eða þá þann flokk sem viðkomandi hugnast. Á þann hátt á kjósandinn í rauninni enga möguleika á að hafna frambjóðenda á þeim lista sem honum hugnast sem hefði einhvernvegin komið sér til dæmis í 3. sæti einhvers fjórflokkanna og má því segja að það séu bara síðustu og kannski næstsíðustu þingmennirnir á listanum sem hefðu persónulegt umboð kjósenda. Þetta á þegar við í einhverjum mæli í núverandi kerfi, en með því að skipta Reykjavíkurkjördæmi upp í tvennt var reynt að stemma stigu við þessu eins og kostur var.

Er því ljóst að til þess að bæta lýðræðið verulega frá núverandi kerfi með því að gera landið að einu kjördæmi verður að taka upp óhlutbundnar kosningar. Hægt er að hugsa sér tvær leiðir. Aðra þar sem kjósendur merkja við allt að 63 frambjóðendur innan sama framboðslistans sem fá þá allir eitt atkvæði og færi þá prófkjör í rauninni fram um leið og listinn væri kosinn. Hin leiðin, sem væri enn lýðræðislegri, væri að gefa kjósendum kost á að merkja við allt að 63 frambjóðendur á kjörseðlinum öllum, óháð listum. Frambjóðendum væri áfram skipað á lista og varamenn yrðu sóttir á lista viðkomandi eftir atkvæðafjölda og til einföldunar væri einnig hægt að bjóða upp á að krossa við heilan lista sem væri þá atkvæði á 63 efstu menn á listanum miðað við óbreyttan þingmannafjölda, en Alþingismenn yrðu þeir sem flest atkvæði hlytu og hefðu því persónulega óskorað og óvéfengjanlegt umboð kjósenda.

Þetta kerfi er ekki fullkomið frekar en hin og hætt er við að margir þeirra sem í dag mæla fyrir einu kjördæmi færu ekki of vel út úr slíkum kosningum. Líklega myndi vinsældapólitík aukast, en á móti eru líkur á að persóna, hugsjónir og sannfæring manna fengi meira vægi, innanflokkspot og erjur minnka verulega, enda tiltölulega auðvelt að komast á 126 manna framboðslista miðað við að þurfa að berjast um efstu sæti framboðslistanna í dag og síðast en ekki síst nánast að útrýma skipulögðu sérhagsmunapoti héraðanna, sem allt í allt myndi færa stjórnmálin nær grunnhugsun lýðræðisins og gera Alþingismenn raunverulega fulltrúa kjósenda sinna.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home