Gestur Guðjónsson

31 janúar 2007

Hvað er stórt og hvað er smátt

Tony Blair ætlar að verða verndari átaks Breta gegn hvalveiðum Íslendinga. Þetta lítur út fyrir að vera afar göfugt í augum þeirra sem vernda vilja hvalina. En um leið og þessu átaki er hrint af stokkunum er starfsleyfi kjarnorkuendurvinnslustöðvarinnar í Sellafield endurnýjað !

Það er merkileg forgangsröðun að mótmæla nýtingu hvalastofnsins fyrir hádegi meðan að eftir hádegi er starfsemi sem sannarlega ógnar lífríki alls Norður Atlantshafsins heimiluð. Skemmst er að minnast óhappsins sem varð þegar 83.000 lítrar af geislavirkum vökva láku úr skemmdu röri í endurvinnslustöðinni.

Þetta er umhverfishræsni af verstu gerð

15 janúar 2007

Fréttir bannaðar börnum

Ég var að borða kvöldmatinn í kvöld með fjölskyldu minni, þám 6 ára gamalli dóttur. Þegar í viðtækinu glymur "Ekki tókst betur til en að höfuðið slitnaði af al Tikriti, hálfbróður Saddams, við henginguna".

Ég hringdi í fréttastofu RUV og fékk samband við fréttamanninn sem vann fréttina, í umboði fréttastjórans Boga Ágústssonar. "Svona er heimurinn, við sýnum hann bara eins og hann er" var svarið. Sagðist fréttamaðurinn aðspurður eiga börn og fannst eðlilegt að börn heyrðu þetta. Þar er ég ekki sammála

Það eru framin mörg voðaverk á hverjum degi í heiminum, þótt þau séu ekki sýnd og þeim ekki lýst í fréttum. Vonandi er það vegna þess að fréttamönnum finnst það ekki við hæfi, sem ber vott um ákveðið siðferðismat. Mér finnst þessar lýsingar á hengingunni og reyndar einnig myndbirtingarnar af aftöku Saddams og nákvæmar lýsingar á kynferðislegu ofbeldi gagnvart heyrnarlausum eiga jafn lítið samleið með kvöldmatnum eins og nákvæmar lýsingum á nauðgunum, drápum og limlestingum á börnum.

Kjarninn í þessu er líka, hvað í veröldinni koma þessar lýsingar okkur við? Það er frétt að þeir hafi verið teknir af lífi. Ekki að hausinn hafi dottið af og ekki að þeir hafi skitið á sig og átt sáðlát eins og yfirleitt gerist víst við þennan voðaverknað. Það kemur okkur einfaldlega ekkert við og allra síst börnunum okkar, þannig að ef fréttamenn hafa þær annarlegu hvatir að vilja sýna almenningi þetta eiga þeir að gera það í tíufréttunum.

Þegar fréttatímar eru orðnir þannig að það er í rauninni barnaverndarmál að láta þau fylgjast með þeim er eitthvað mikið að...

08 janúar 2007

Auðunn Gestsson 24.02.1913 - 25.12.2006

- Ég segi nú ekki margt og smart, jahahá.
Afi minn, Auðunn Gestsson, segir þetta víst ekki aftur um leið og hann trommar með fingrunum á eldhúsborðið. Hann hefur lokið sinni lífsgöngu. Lífsgöngu sem hann naut, lífsgöngu sem margir hafa lært mikið af og margir hafa fengið að njóta með honum. Síðustu sporin sem við áttum saman voru þegar hann fylgdi okkur til dyra á Kumbaravogi, þar sem hann bjó síðustu árin og kvaddi þá Auðun alnafna sinn með sínu blíða brosi, sæll og glaður í bragði.

Ég var svo heppinn að hafa hann ekki bara sem móðurafa, heldur líka sem mikinn og náinn vin. Ég bjó hjá honum og ömmu í Fossheiðinni á Selfossi í 4 ár meðan ég var í framhaldsskóla og tvö sumur að auki. Á sumrin smíðuðum við saman hjá Samtak hf sem var hinum megin við götuna þannig að við gátum farið heim í mat í hádeginu og sofnað yfir fréttunum.

Við afi áttum sérstaklega gott skap saman, skröfuðum margt og brölluðum ýmislegt. Það var alltaf gaman þegar afi var í nánd og verður áfram þegar sögur tengdar honum verða rifjaðar upp.

Þau hjónin brugðu búi á Kálfhóli á Skeiðum og fluttust á Selfoss þegar afi var 66 ára. Það var voguð ákvörðun að skipta um starfsvettvang á þeim aldri, en það var eins og með allt hans lífshlaup, hann hafði yfirsýn og stjórn á hlutunum og var ófeiminn við að taka ákvarðanir þegar tími þeirra kom. Sama var uppi á teningnum þegar amma dó og hann hafði ekkert að gera við húsið á Fossheiðinni. Hann seldi og keypti íbúðina á Grænumörk án þess að börnin hefðu nokkuð um það að segja. Maður gat alveg greint smá gremju í þeim að fá ekkert að ráðskast með gamla manninn, en hann fór sínu fram og hafði stjórn á hlutunum.

Það var aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig hann tók breytingum. Hann hafði oftast stjórn á hraða þeirra og stefnu, en brást á jákvæðan hátt við þeim breytingum sem hann fékk ekki ráðið við. Hann hafði sinn þjóðlega grunn að byggja á, mikla manngæsku, ást á landinu og dýrunum og áhuga á öllu mannlegu. Það er grunnur sem nýttist honum vel og aflaði honum mikillar virðingar.

Virðing er ekki eitthvað sem maður getur krafist, heldur nokkuð sem maður öðlast. Með fasi sínu og lífsviðhorfi ávann afi sér virðingar þeirra sem hann komst í kynni við og veit ég lærðu margt af honum um það hvernig á að lifa lífinu. Hann kenndi það ekki með predikunum, heldur með því að vera eins og hann átti að sér að vera.

Fyrir það vil ég þakka og óska að heimurinn eignist sem flesta hans líka.

06 janúar 2007

Aðgát skal höfð......

Þótt þetta sé ekki í rauninni neytendamál í þrengsta skilningi þess hugtaks, þá er þessi grein á heimasíðu neytendasamtakanna virkilega góð og rétt

"Margir foreldrar hafa haft samband við Neytendasamtökin og lýst yfir hneykslun sinni á því að myndir af aftöku Saddams Husseins hafi verið birtar í sjónvarpsfréttum en myndbrotið hefur verið sýnt víða. Í frétt í Berlingske Tidende segir frá því að þrjú börn hafi látist eftir að hafa hermt eftir aftökunni, eitt í Texas, annað á Indlandi og það þriðja í Pakistan. Neytendasamtökin hafa ítrekað bent á að börn eru virkir sjónvarpsáhorfendur og þau og foreldrar þeirra eiga að geta treyst því að óhugnanlegt efni birtist ekki á skjánum snemma kvölds. Slíkt er enda brot á útvarpslögum. Vel má vera að fullorðið fólk kippi sér ekki upp við upptökuna af Saddam en efni sem þetta á ekkert erindi til barna. Myndbrotið hefði frekar átt að sýna í fréttum kl 22:00 ef það þótti ástæða til að sýna það á annað borð og það sama á við um fréttir af stríðsátökum, gíslatökum, fuglaflensu og öðrum hörmungum."