Gestur Guðjónsson

28 maí 2006

Að loknum kosningum

Þá liggur fyrir niðurstaða borgarstjórnarkosninganna. Björn Ingi Hrafnsson, oddviti okkar Framsóknarmanna í Reykjavík náði öruggri kosningu, kom inn sem 14. borgarfulltrúinn með 6,3% fylgi.

Þetta er að vísu minnsta fylgi sem Framsóknarflokkurinn hefur fengið í borginni en miðað við skoðanakannanir og umræðuna í kosningabaráttunni mega framsóknarmenn ágætlega við una, en í upphafi baráttunnar mældist flokkurinn með helmingi minna fylgi, en endaði með 4.056 atkvæði. Má það öðru fremur þakka góðu starfi þeirra sem að framboðinu unnu, glæsilegum frambjóðendum og góðri stemmingu.

Það sem eru hins vegar stærstu tíðindi borgarstjórnarkosninganna er hin dræma kosningaþátttaka, en einungis 77% atkvæðisbærra borgarbúa nýttu rétt sinn. Þurfa stjórnmálaflokkarnir allir að taka til athugunar hvað veldur þessu. Eitthvað hefur tímasetningin að segja, enda frídagur fimmtudaginn fyrir kosningahelgina, fjöldi utankjörfundaratkvæða ber því vitni.

Það er mín skoðun að stór hluti skýringarinnar sé sú að framboðin kynna afar svipuð málefni. Kannski vegna þess að framboðin eru um of farin að nota skoðanakannanir til að skrifa sínar kosningastefnuskrár en skrifa þær minna frá eigin brjósti og sannfæringu og enn síður að þau kynni sína framtíðarsýn.

Ég man til dæmis ekki eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi mikið talað um frelsi einstaklingsins og minni afskipti hins opinbera og Samfylkingin ræddi lítið um klassíska jafnaðarstefnu og jafnaðarnálgun á úrlausnir. VG var meira að kynna lífssýn og grundvallarheimspeki og ég tel það grundvöll þess hversu vel þeim gekk. Mega framsóknarmenn af þeim læra.

22 maí 2006

Lítið um blogg

Ég er þessa dagana upptekinn við kosningabaráttu Framsóknar í Reykjavík og blogga því lítið.
Bendi á beitt skrif á www.timinn.is þar sem farið er vel yfir málin og svo að sjálfsögðu að vefsíðuna www.hrifla.is þar sem ég er ritstjóri.