Gestur Guðjónsson

29 júní 2005

Endurskoðun stjórnsýslunnar

Í þjóðhátíðarræðu Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, boðaði hann endurskoðun stjórnsýslunnar og skyldi þeirri endurskoðun hraðað. Eru það afar góð tíðindi, bæði það að loksins sé kominn í embætti forsætisráðherra sem þorir að takast á við þetta löngu tímabæra verkefni og eins því að málsmeðferðin skuli eiga að verða hröð, enda ekki gott fyrir stjórnsýsluna og starfsfólk hennar að búa of lengi við þá óvissu sem eðlilega skapast við slíka endurskoðun.

En þessi umræða má ekki einvörðungu snúast um endurskipulagningu þeirra verkefna og verkefnaflokka sem núverandi ráðuneyti hafa og fækkun þeirra, heldur verður hún líka að snúast um hvaða verkefni hinar þrjár meginstoðir ríkisvaldsins eiga að hafa með höndum og hvernig verklag við stjórn þjóðfélagsins eigi að vera. Grundvallarhugsun skiptingar ríksvaldsins er að löggjafarsamkoman setji lögin sem fara skuli eftir, framkvæmdavaldið í formi ráðuneyta og sveitarstjórna sjái um að lögin séu framkvæmd og dómsvaldið kveði upp dóma í þeim ágreiningsmálum sem upp koma.

Eins og stjórnskipunin hefur verið framkvæmd hér á landi verður að segjast, þrátt fyrir að við búum amk í orði kveðnu við þingræði, að framkvæmdavaldið hefur afar sterk tök á ríkisvaldinu. Reyndar á það ekki við um sveitarstjórnarstigið, en starfsmenn ráðuneytanna og undirstofnanna þeirra hafa sífellt meira að segja um það hvaða lög eru sett og hvernig þau skuli útfærð.

Auðvitað hafa starfsmenn stjórnsýslunnar mikla reynslu sem taka verður mark á, en það að lagatexti sé í flestum tilfellum saminn innan veggja ráðuneytanna með mismiklu samráði við aðra aðila í þjóðfélaginu, verður að teljast óeðlilegt að þeir sem eigi að framfylgja lögunum hafi jafn mikið að segja um hvernig þau lög eigi að vera og raun ber vitni. Ein afleiðing þessa er að lögin eru sífellt meira að verða að rammalögum, þar sem raunverulegt innihald þeirra og framkvæmd eru framseld framkvæmdavaldinu í formi reglugerðaheimilda. Nýlegt dæmi eru lög um verndun hafs og stranda, þar sem stafrófið rétt dugði fyrir þeim reglugerðarheimildum sem Umhverfisráðherra var gefið.

Yfirlýsingar eins og þær sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa haft um að Alþingi eigi að fá frekari tól og verkefni við eftirlit með framkvæmdavaldinu ber þess vitni að alþingismönnum finnst þeir ekki hafa raunverulegu hlutverki að gegna. Byggjast þessar yfirlýsingar á grundvallarmisskilningi á þrískiptingu ríkisvaldsins. Ef borgararnir hafa eitthvað að athuga við framkvæmd laga eða framgöngu framkvæmdavaldsins, hafa þeir dómstólana að leita til, ekki gasprandi þingmenn sem dylgja og sleggjudæma úr ræðustól Alþingis. Kannski þarf að auðvelda aðgengi að þeim, um það hef ég ekki mótað mér skoðun á en líklegast er alltaf hægt að gera betur þar eins og annars staðar.

Verður að teljast eðlilegra þegar horft er til þrískiptingar valdsins að Alþingi, með öflugra nefndasviði, verkstýri samingu laga. Fastanefndir Alþingis móti þá stefnu sem samning laga skuli unnin eftir og starfsmenn nefndasviðs, í góðri samvinnu við alla þá aðila sem að málinu koma, þar á meðal ráðuneytin, semji þann lagatexta sem lagður er fyrir Alþingi. Eins og málum er háttað í dag gegnir Alþingi því miður meira hlutverki gæðaeftirlits en ekki stefnumótun sem á að vera frumverkefni löggjafarsamkomunnar.

Á þann hátt verða ráðherrar ríkisstjórnarinnar framkvæmdastjórar verksviða sinna í stað þess að vera nánast einvaldar á sínu sviði, sem er aldrei gott, sama hversu sterk bein og góðan vilja þeir einstaklingar sem setjast í þá stóla hafa og um leið verða ráðuneytin ekki eins stór og flókin og þau annars yrðu þegar verkefni þeirra verða endurskipulögð og þeim fækkað.