Á nýafstöðnu umferðarþingi var rifjað upp að beinn kostnaður samfélagsins af umferðarslysum eru um tuttugu milljarðar á ári. Tuttugu þúsund milljónir íslenskra króna. Þetta er yfirgengileg upphæð sem ekki er hægt að sætta sig við, en þó er enn síður hægt að sætta sig við þær mannlegu þjáningar sem liggja að baki þessum tölum.
Margt merkilegt kom fram á þinginu, en meðal þess merkilegasta var að samkvæmt könnun sem gerð var meðal ökumanna sem lent höfðu í slysum töldu þeir í langflestum tilvikum að það væru þeir sjálfir eða hinn ökumaðurinn sem hefði verið orsakavaldur að slysinu. Ekki aðstæður, vegurinn eða ökutækin. Það er mannlegi þátturinn sem er megin orsakavaldurinn þegar slys á sér stað. Er því nauðsynlegt að nýþjálfun og endurmenntun ökumanna verði efld til að auka öryggið í umferðinni.
Auðvitað skipta aðstæður talsverðu máli þegar slysahætta er annars vegar og kosta ákveðnir vegaspottar greinilega fleiri slys en aðrir og ætti það að vera forgangsmál að útrýma þeim svörtu blettum.
Alvarleiki slysa er oftast í beinu hlutfalli við þann hraða sem ökutækin eru á þegar þau lenda í slysinu og má gleggst sjá það á því að dauðaslys eru langsamlega algengust á þjóðvegum landsins, en ekki í þéttbýli.
Á sama tíma og leyfilegur hámarkshraði á þjóðvegum landsins þar sem hraðinn er meiri, en ekki í þéttbýli þótt umferðin sé mest þar.er 90 km/klst og miklu púðri er eytt í að reka áróður fyrir því að ekið sé hægar, er með ólíkindum að til sölu skuli vera bifreiðar sem geta keyrt meira en tvöfalt hraðar en leyfilegt er samkvæmt umferðarlögum.
Sérstaklega er það undarlegt þegar til er búnaður til að takmarka hámarkshraða ökutækja sem hefur verið í notkun um árabil. Vörubílar, rútur og aðrir flutningabílar hafa um langa hríð verið með svonefnda hraðatakmarkara sem vinnur á þann hátt að ökutækin komast ekki hraðar en á tiltekinn hraða, oftast 90-100 km/klst, en 85-90 km/klst þegar þau flytja hættulegan varning. Nútíma bílar eru nánast allir tölvustýrðir, þar sem hægt er að stilla hámarkshraða bifreiðar í tölvu bílsins og þótt það sé ekki hægt í tölvunni er kostnaður við ísetningu á sjálfstæðum búnaði að hámarki um 200.000,- á bíl, eða 0,001% af árlegum kostnaði samfélagsins viðbílslys, en náttúrulega miklu minna ef hægt er að forrita hámarkshraðann í tölvu bílsins. Það kostaði þannig einungis uþb helming af árlegum beinum slysakostnaði samfélagsins að setja hraðatakmarkara í alla bíla landsins á dýrasta hátt og líklegast einungis brot af honum þar sem bílaflotinn er jafn nýr og raun ber vitni.
Eðlilegt væri að stilla hámarkshraða bíla eitthvað hraðar en löglegan hámarkshraða til að auðvelda framúrakstur og til að komast hraðar í neyðartilfellum, til dæmis 110-120 km/klst, en að hleypa bílum út í umferðina sem geta farið allt að og yfir 200 km/klst hraða er hrein vitfirring og verður að taka á hið fyrsta.