Gestur Guðjónsson

21 júlí 2005

Ný fréttastöð

Nú hafa 365 miðlar gefið út að þeir ætli að hefja rekstur nýrrar fréttasjónvarpsstöðvar. Það hljómar afar spennandi og verður að teljast djarft að reyna rekstur á slíkri stöð og áhugavert að sjá hvort hún standi undir sér, en það er samt margt í tengslum við þetta mál sem vekur upp spurningar.

Stöðvarstjóri stöðvarinnar verður sá hinn sami og “sagði af sér”, eins og hann komst sjálfur að orði þegar hann var staðinn að því að bera helberar lygar upp á forsætisráðherra í herför sinni og hóps fréttamanna hjá fyrirtækinu gegn honum, án þess að gera neina tilraun til að fá fréttina staðfesta. Ætli hann hafi skipt um skoðun eða lært eitthvað af því atviki? Ætli það sé tilviljun að hann sé ráðinn til þessa starfa og er það kannski vísbending um þá ritstjórnarstefnu sem eigendur fyrirtækisins vilja við hafa á þessum miðli?

Reyndar er mér það til efs að hann hafi sagt eins mikið af sér og hann vildi vera að láta, ætli hann hafi nokkurn tíma farið af launaskrá fyrirtækisins, þrátt fyrir að hafa sett sig nánast í guðatölu vegna fórnar sinnar fyrir málstaðinn?

Eins er allrar athygli vert að setja þessa stöð í loftið þegar vitað er að forstjóri Baugs, sem er stærsti einstaki hluthafinn í OgVodafone sem aftur á 365 miðla, verður mikið í umræðunni vegna dómsmála. Ætli það sé tilviljun að fara eigi í útsendingar á “sjón-útvarpsefni” þar sem efnið verður óhjákvæmilega mun minna unnið en við eigum að venjast og fleiri hlutir látnir flakka órannsakaðir en áður og líklegt sé að fréttastofur Stöðvar 2, Fréttablaðisins, DV og Hér og nú muni koma að með efni eins og Fréttablaðið hefur verið að gera á Talstöðinni? Ætli það sé af óánægju með þá framtíðarsýn sem að sjónvarpsstjórinn sagði upp störfum?

Það verður í það minnsta áhugavert að sjá hversu lengi rekstri þessarar stöðvar verður haldið áfram eftir að dómsmálunum lýkur og ekki síður áhugavert hvort almennir hluthafar í OgVodafone muni hafa gleði og arð af þessari ráðstöfun fjármuna sinna.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home