Á undanförnum misserum hefur sífellt farið meira fyrir forstöðumönnum greiningadeilda bankanna, þegar álit vantar á hinum ýmsu atriðum er varða hagstjórn og viðskiptaumhverfið. Hafa þeir og verið fúsir til að veita slíkt álit á opinberum vettvangi, sérstaklega í tengslum við hlutabréfabóluna sem sprakk fyrir örfáum árum síðan og aftur virðast þeir vera farnir að ná eyrum margra, bæði í viðtölum og eins í daglegum skrifum á netinu.
En er víst að það sé algerlega hlutlaus greining og mat sem þessir ágætu aðilar eru að veita?
Bankarnir gefa út greiningar á fyrirtækjum öðru hverju og er það góðra gjalda vert, en það væri fróðlegt að sjá hversu mörg fyrirtæki, sem þeir svo stuttu seinna hafa staðið að yfirtöku á, hafa fengið slíka greiningu opinberlega.
Ef ég ætti banka og væri að greiða fólki góð laun fyrir að greina markaði, viðskiptatækifæri og hagkerfið, vildi ég ekki þá ekki eiga þá greiningu fyrir mig, svo ég geti nýtt mér hana til að ávaxta mitt pund og njóta forskots á markaði?
Að manni getur óneitanlega læðst sá grunur að stjórnendur bankanna noti greiningardeildirnar í áróðursskyni og til að hafa áhrif á markaðinn, fremur en að greina hann hlutlaust opinberlega. Önnur ráð séu svo gefin innanhúss. Gott dæmi um þetta er umfjöllun þeirra um starfsemi Íbúðalánasjóðs, þar sem þeir hafa grímulaust verið að fjalla um skoðanir sínar á því fyrirbæri, fremur en að greina kosti og galla fjárfestinga í bréfum útgefnum af þeim sjóði og þeim lánum sem þeir bjóða.
Verður því að taka greiningum þessara greiningadeilda með gagnrýnum augum og reyna að greina hvað eru raunveruleg hlutlaus greining og hvað er áróður sem hefur það að markmiði að bæta hag viðkomandi banka.
Í tengslum við niðurlagningu Hagstofu Íslands var auknu fé veitt til hagdeilda verkalýðshreyfingarinnar og er eðlilegt að Háskóli Íslands fái enn aukið hlutverk í þessu sambandi. En í þessum aragrúa af ráðgefendum, mishlutlausum, er því ekki að neita að Hagstofu Íslands sé saknað. Væri gustuk að því að stofna Efnahagsgreiningardeild innan Háskóla Íslands og veita honum nægjanlegt fé til að veita okkur bráðsaklausu brekkusniglunum sem ekki höfum fingurinn á púlsinum frá degi til dags hlutlaust mat á stöðu mála í efnahags- og viðskiptalífinu.