Gestur Guðjónsson

10 mars 2005

Gjaldtaka á villigötum

Samkvæmt lögum sem samþykkt voru á síðasta þingi taka ný lög um olíugjald og veggjald gildi þann 1. júlí nk.

Tilgangur þeirra er bæði göfugur og réttur, að auka hlut díselbíla í fólksbílaflota landsmanna. Bæði er það vegna þess að þeir bílar nýta eldsneytið betur en bensínbílar og senda þar með minni gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið og ekki síður vegna þess að það er ódýrara fyrir þjóðarbúið í innkaupum en bensín, þótt sá munur hafi minnkað síðustu misseri vegna aukinna krafna til brennisteinsinnihalds díselolíunnar.

Það er ljóst að í núverandi kerfi er það engan vegin hagkvæmt að kaupa lítinn dýrari díselbíl í stað tilsvarandi bensínbíls. Í núverandi kerfi er afar lítill munur á fastagjaldi þungra og léttra fólksbíla þar sem 975 kg smábíll, sem eyðir 4,6 lítrum á hundraðið er að borga 101.815 kr í þungaskatt á ári meðan eigandi samskonar smábíls sem með bensínvél eyðir 5,9 lítrum á hundraðið greiðir miðað við 20.000 km akstur á ári tæplega 50.000 kr á ári til Vegagerðarinnar og er því augljóst að léttir díselbílar eru engan vegin hagkvæmir meðan ríkið heimtir tvöfalt gjald af þeim miðað við bensínbíla.

Til að ráða bót á þessu lagði fjármálaráðherra fram á Alþingi frumvarp þar sem lagt var til að þungaskattskerfið yrði lagt niður að hluta og í staðin yrði tekið upp olíugjald af díselolíu til ökutækja. Ökutæki yfir 10 tonnum greiða áfram þungaskatt auk olíugjaldsins, þannig að ekki er um einföldun á innheimtunni að ræða, þvert á móti er verið að bæta við enn einu skattheimtukerfinu. Díselolía til annarra aðila sem er gjaldfrjáls, yrði lituð, þó með þeirri undantekningu að olía til skipa yfir 6 metrum má ekki lita. Eftir mikla umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd var það frumvarp samþykkt.

En er sú leið sem valin var til að ná þessu markmiði sú rétta?

Færð hafa verið rök fyrir því að með hækkuðu díselolíuverði með upptöku olíugjaldsins verði sparneytnari bílar hagkvæmari og ætti mengun þar með að minnka. Það er rétt, en af hverju eiga þau rök bara við um bíla, af hverju að undanskilja aðra olíunotkun? Ísland er aðili að Kyotobókuninni og hefur axlað skuldbindingar sem kemur til með að kosta samfélagið stórar upphæðir. Upphæðir sem eðlilegt er að þeir sem menga borgi. Á það jafnt við um samgöngur, siglingar, stóriðju og aðra starfsemi. Þannig að ef þau rök að hækkað eldsneytisverð minnki mengun eiga við í samgöngum eiga þau við annarsstaðar líka og sanngirnismál að samgöngum sé ekki mismunað sérstaklega.

Lögin eru meingölluð og bjóða heim umfangsmiklum undanskotum, enda 56 kr verðmunur á gjaldskyldri og ógjaldskyldri olíu til neytenda. Ekki má lita olíu til skipa yfir 6 metrum sem þýðir að þeir sem hafa aðgengi að slíkum skipum geta keypt díselolíu, borið hana í land og notað á bíla sína án þess að raunverulega verði hægt að sanna það brot og einnig er refsirammi laganna þannig að ca í 10. skipti sem þú værir tekinn með litaða olíu á bílnum á sama árinu ferð þú að tapa á brotinu, ekki fyrr.

Fjöldi manns hefur aðgengi að vinnuvélaolíu og í Noregi sem búa við þetta kerfi er það mat manna að í landbúnaði og framkvæmdum sé notkunin 50% meiri en hún ætti að vera. Þar er verðmunur á díselolíunni ekki nema brot af því sem hann verður hér, en þrátt fyrir það eru undanskotin þar umfangsmikil og eftirlit afar kostnaðarsamt.

Það hlýtur að teljast sanngjarnt og í takt við tímann að það fé sem rennur til Vegagerðarinnar sé innheimt af notendum vegakerfisins og ætti slíkt kerfi að leitast við að sú gjaldtaka sé í sem réttustu hlutfalli við notkun á þjónustu hennar. Þar er bæði átt við aðgang allra landsmanna að greiðfæru og öruggu vegakerfi, vetrarþjónustu og viðhaldi vegakerfisins. Í rauninni er því ekki um raunverulegan skatt að ræða, frekar notendagjöld. En að innheimta gjöldin í gegnum eldsneytið endurspeglar jú ekki notkun á veginum nema að litlu leiti og eðlilegra að miða við notkunina á kerfinu sem er mæld í kílómetrum.

Auðveld leið til að jafna þennan mun sem er í dag og ná sama markmiði er að lækka fastagjald léttari díselbíla þannig að þeir greiði svipaða upphæð til Vegagerðarinnar og bensínbílar og gera fastagjaldskerfið neytendavænna með fjölgun gjalddaga, amk meðan leitað er leiða til að innheimta gjaldið á sanngjarnari hátt en með föstu gjaldi óháð notkun.

Evrópusambandið hefur gefið út tilskipun sem á að vera komin í framkvæmd árið 2009, sem skyldar aðildarþjóðirnar að koma upp kerfi sem getur mælt ekna kílómetra á vegum sínum. Á að setja búnað í bílana, vörubílana fyrst, sem mælir ekna kílómetra í hverju ríki og á hverju gjaldsvæði, annaðhvort með GPS eða Galileo mælibúnaði og koma upp kerfi til að lesa sjálfvirkt af honum. Má því búast við miklum tækniframförum á þessu sviði á næstu árum og líklegast verður þessi mælibúnaður staðalbúnaður í öllum bílum þegar fram í sækir.

Er því alveg ljóst að tækniþróunin er að fara í allt aðra átt en Fjármálaráðherra og væri gustuk af því að hann sæi að sér áður en ríkið verður af stórkostlegum fjármunum við sjálfa upptöku olíugjaldkerfisins sem er talin í hundruðum milljóna, auknum kostnaði samfélagsins við dreifingu olíunnar og þeim undanskotum sem á eftir munu fylgja.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home